„Vita ekki einu sinni hvar á að keyra inn í bæinn“

Magnús var meðal þeirra sem tóku til máls á íbúafundi …
Magnús var meðal þeirra sem tóku til máls á íbúafundi í Borgarnesi þar sem kynntar voru tillögur að nýju rammaskipulagi í Brákarey. Samsett mynd/Theódór Kr. Þórðarson/Festir

Magnús Scheving, leik­ari og höf­und­ur Latabæjar, kallar eftir því að Borgarbyggð móti heildarsýn um framtíð Borgarness þannig að hægt sé að samstilla betur þær hugmyndir sem settar hafa verið fram í tengslum við uppbyggingu í bænum og laga þær að framtíðarsýninni. 

Magnús bjó í Borgarnesi frá þriggja til þrettán ára aldri og hefur sterkar taugar til bæjarins. Því langar hann að reisa í bænum upplifunargarð sem byggir á Latabæjarþáttunum og sögu Íslands fyrr og nú.

Magnús kynnti þessa hugmynd sína í Hjálmakletti í Borgarnesi í lok árs 2021 en segir verkefnið stranda á því að enn hafi ekki verið mótuð framtíðarsýn fyrir bæinn. Hann skoðar því hvort setja eigi upp upplifunargarðinn annars staðar á Íslandi eða jafnvel annars staðar í heiminum. 

Hefði vilja sjá fleiri fengna að borðinu 

„Þeir vita ekki einu sinni hvar á að keyra inn í bæinn. Ég veit ekki alveg hvernig þeir ætla að byggja upp miðbæ,“ segir Magnús um sveitarstjórnina og leggur áherslu á mikilvægi þess að hver bær marki sér miðbæ til að vinna skipulag út frá. 

Blaðamaður ræddi við Magnús í kjölfar íbúafundar sem haldinn var í Borgarnesi á fimmtudaginn þar sem kynntar voru tillögur að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi. 

Til­lög­urn­ar fela í sér að gam­alt skipu­lag víki fyr­ir nýju og að í Brákarey verði veg­legt og skjólgott miðbæj­ar­torg þar sem verður at­vinnu­starf­semi, íbúðar­hús­næði, hót­el og baðlón.

Magnús var sjálfur staddur á íbúafundinum og var meðal þeirra sem tóku til máls að kynningunni lokinni. Byrjaði hann á því að taka undir orð fyrri ræðumanna um að loksins ætti að gera eitthvað í eyjunni, en kvaðst á sama tíma vonsvikinn með að ekki hefðu verið fengnir fleiri að borðinu til að taka þátt í hugmyndavinnunni.

Fjölmennt var á íbúafundi í Hjálmakletti þar sem tillögur Festis …
Fjölmennt var á íbúafundi í Hjálmakletti þar sem tillögur Festis fasteignaþróunarfélags að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi voru kynntar. mbl.is/Theódór Kristinn Þórðarson

Tillögurnar muni ekki auðga líf Borgnesinga

„Það sem ég saknaði aðeins að sjá, og hef saknað í samstarfi við Borgarbyggð, það er hreinlega að það sé einhver heildarhugmyndafræði um framtíð Borgarness næstu árin. Ekki til fjögurra ára heldur til lengri tíma.“

Framtíðarsýnina segir hann mikilvæga í ljósi þess hversu langan tíma tekur að byggja upp bæ sem þennan. Þá segir hann Borgarnes jafnframt standa frammi fyrir því að vera bær sem fólk sæki lítið í. 

„En það er að koma að Borgarnesi,“ segir Magnús og útskýrir að á meðan húsnæðisverð hækki á höfuðborgarsvæðinu þá sæki fólk í nálæga bæi eins og Borgarnes. Hann segir aftur á móti skorta framtíðarsýn til að gera Borgarnes að spennandi valkosti. 

„Sem væri þá: „Hvernig ætlum við að hafa Borgarnes og fyrir hvað stendur Borgarnes“. [...] Í þessum tillögum sem eru að koma þarna er eingöngu verið að stíla á þriðja aðila. Sem er bara túrismi, bara útlendingar. Sem er allt í lagi, það skapar tekjur og er frábært og allt það, en ég er ekkert viss um að það muni endilega auðga lífið fyrir Borgnesinga sem búa þar.“

„Erfitt að segja að það eigi að gera eitthvað annað“

Tillaga fasteignaþróunarfélagsins Festis, að nýju rammaskipulagi í Brákarey, felur í sér að í eyjunni verði til að mynda hótel, baðlón, verslanir og veitingaþjónusta.

Telur Magnús það ekki markmiðið með tillögunni að Borgnesingar haldi uppi starfsemi í eyjunni og kveðst hann frekar eiga von á því erlent vinnuafl verði fengið til að sinna þeim störfum sem þar myndu skapast. 

„Ég veit ekki hvort að eyjan hefði átt að verða einhvern veginn öðruvísi svæði, sem hefði nýst Borgnesingum betur. Ég er ekki alveg viss um að Borgnesingar, eða Borgarbyggð, hefði haft efni á að gera það.“ 

Kveðst hann þeirrar skoðunar að ef einungis sé horft á tillöguna út frá því að henni fylgi fjármagn, þá sé um að ræða tillögu sem Borgnesingar ættu ekki að láta úr hendi sleppa. 

„Það er erfitt að segja að það eigi að gera eitthvað annað þarna þegar því fylgir ekki fjármagn,“ segir Magnús sem hefði, eins og fyrr segir, viljað sjá að kallað hefði verið eftir tillögum frá fleiri aðilum.

Til­lög­urn­ar fela í sér að í Brákarey verði veg­legt og …
Til­lög­urn­ar fela í sér að í Brákarey verði veg­legt og skjólgott miðbæj­ar­torg þar sem verður at­vinnu­starf­semi, íbúðar­hús­næði, hót­el og baðlón. Teikning/Festir

Verður að vera framtíðarsýn

„Þegar við báðum um að fá að vera í eyjunni, því við töldum okkur geta búið til alveg ótrúlegt svæði í eyjunni, þá var enginn áhugi á því og okkur sagt að það væri ekki hægt að gera neitt í eyjunni. Svo hálfu ári seinna er bara verið að skipuleggja eyjuna,“ segir Magnús.

Spurður hvort hann hafi fjármagn til að reisa upplifunargarð í bænum sem byggir á Latabæjarþáttunum og sögu Íslands fyrr og nú svarar Magnús: 

„Við gætum alltaf sótt fjármagn ef hugmyndin og staðsetningin er rétt. En það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir einhverju sem er bara plantað niður einhvers staðar og engin pæling í kringum það. Það verður að vera einhver framtíðarsýn.“

Getur ekki beðið mikið lengur 

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að Magnús opinberaði fyrst hugmyndir sínar um upplifunargarð í Borgarnesi hafa önnur bæjarfélög á Íslandi, sem og borgir úti í heimi, óskað eftir því að fá að setja upplifunargarðinn upp hjá sér. 

„Ég get sett Latabæ á marga staði í heiminum ef ég vil, en mig langar að gera þetta í Borgarnesi þar sem ég bjó á 3-13 ára aldri,“ segir Magnús en bætir við að hann geti ekki beðið mikið lengur. 

Magnús tekur þó fram að búið sé að skipta um sveitarstjórn síðan hann átti síðast samtal við Borgarbyggð. Því hyggst hann hefja samtalið við Borgarbyggð á ný, og jafnframt samtal um mögulega samvinnu við Festi, áður en hann tekur ákvörðun um að skoða aðra möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert