Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir fregnir af dauða varaforseta Malaví, Saulos Chilima, „hræðilegar“.
Chilima fórst í flugslysi í gær ásamt níu öðrum.
Bjarni fór í opinbera heimsókn til Malaví í maí í tilefni af 35 ára samstarfsafmæli landanna og átti þar í nokkru samneyti við varaforsetann.
„Þetta eru bara sláandi fréttir,“ segir Bjarni, en í heimsókninni ferðaðist hann sjálfur með flugvélinni sem fórst í gær.
„Flugvélin sem í hlut átti er bara sama flugvélin og ég flaug með milli staða innanlands í Malaví,“ upplýsir hann í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Kveðst Bjarni hafa átt góða fundi og kvöldverð með Chilima og eiginkonu hans í heimsókninni í maí og varaforsetann hafa tekið á móti sér við komuna til Malaví og sömuleiðis fylgt sér upp í flugvélina við heimför.
„Ég hitti hann og eiginkonu hans á menningarkvöldi sem við efndum sameiginlega til og stigum saman dansinn þar,“ segir Bjarni en myndskeið af Bjarna og embættismönnum í Malaví stíga saman dans vakti nokkra lukku hér á landi.