Unnið er að nýrri aðgerðaáætlun mansalsmála og endurskoðun á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem snúa að atvinnuþátttöku ríkisborgara þriðju ríkja og tímabundnum atvinnuleyfum útlendinga.
Þetta kom fram í svari Guðrúnar Hafsteindóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstri grænna, á fundi Alþingis í gær.
Spurði Jódís ráðherra hvernig tekið væri á móti flóttafólki sem er þolendur mansals og hvernig stefnu stjórnvalda í mansalsmálum er framfylgt gagnvart þeim hópi.
Sagði Guðrún vinnu að nýrri aðgerðaáætlun í málaflokknum eiga að leiða til frekari rýni á réttindamálum erlendra ríkisborgara í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði, þar með talið þolendum mansals.
„Nú þegar hefur verið skipaður starfshópur um endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga,“ sagði Guðrún og útskýrði að starfshópurinn muni taka tillit til þeirra mansalsmála sem upp hafa komið á liðnum árum og draga lærdóm af þeim.
„Ljóst er að taka þarf í auknum mæli tillit til áhættuþátta er snúa að vinnumansali hér á landi.“
Kvaðst hún þá ætla að beita sér fyrir að haldið væri utan um greiningar á hversu mörgum einstaklingum hefði verið veitt staða flóttamanns á grundvelli þess að viðkomandi hefði verið fórnarlamb mansals.