Fáir þingflokkar jafnedrú og Viðreisn

María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður Viðreisnar.
María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég verð að viðurkenna að ég staldraði aðeins við þegar ég hjó eftir því að þessari umræðu er stillt upp sem einhvers konar andstöðu við málflutning Sjálfstæðismanna um netsölu áfengis,“ sagði María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður Viðreisnar í umræðum um aukið aðgengi að áfengi á Alþingi í dag.

María Rut segir málin vandfundin sem ekki ríki ágreiningur um meðal ríkisstjórnarflokkanna og komi því ekki á óvart að þá greini á um netverslanir með áfengi.

Málshefjandi umræðunnar var Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna. 

Margt annað hættulegt en áfengi

„Það er margt hættulegt í mannheimum. Við neytum óhollra matvæla, við innbyrðum óholla hluti alla daga en við í Viðreisn erum frekar hrifnari af því að treysta fólki og stuðla að frelsi þeirra til athafna með ábyrgð,“ sagði María Rut.

Viðreisn hafi ekki trú á einokun ríkisins á smásölumarkaði með áfengi. Þróunin sýni að þeir sem ætli sér að kaupa áfengi finna sér leið til að útvega sér það.

„Ég held að einokun ríkisins í þeim efnum breyti engu þar um, því miður,“ sagði María Rut.

Flestir góðtemplarar í Viðreisn

Hún sagði það ótækt að ekki sé verið að framfylgja lögum í landinu en að það sé ríkisstjórnarinnar að tryggja skýran lagaramma um málaflokkinn. María hvatti stjórnarflokkana til að horfast í augu og leysa úr þessari lagatæknilegu flækju.

„Að því sögðu þá held ég að það séu fáir þingflokkar sem eru jafn edrú og þingflokkur Viðreisnar og þess vegna er þetta ekki þannig að þetta sé eitthvað hagsmunamál okkar. Við erum flest góðtemplarar,“ sagði María Rut að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka