Frederiksen Ale House lokar fyrir fullt og allt

Frederiksen Ale House var opnað árið 2014.
Frederiksen Ale House var opnað árið 2014. Ljósmynd/Aðsend, Facebook

Frederiksen Ale House hefur nú lokað dyrum sínum fyrir fullt og allt. Reksturinn hefur verið seldur og kemur nýr staður í Hafnarstrætið von bráðar.

Þetta staðfestir Stella Þórðardóttir, eigandi Frederiksen, í samtali við mbl.is.

Hún segir framkvæmdir og erfið ár vegna kórónuveirufaraldursins hafa gert útslagið. Þá sé fjölskyldan orðin þreytt eftir erfiðan rekstur síðustu árin en það sem standi þó upp úr eftir áratuginn sem fjölskyldan hafi staðið í þessu sé starfsfólkið og fastakúnnarnir.

„Þetta er hvorki búið að vera fugl né fiskur síðan eftir Covid og þar á undan var gatan grafin upp, og var verið að laga, sem átti að taka einhvern X tíma en tók helmingi lengri tíma. Svo þegar það átti að fara að verða gott, þá bara kom Covid og það tók þann tíma sem það tók,“ segir Stella.

Þau hafi neyðst til þess að loka eldhúsinu eftir faraldurinn sem hafi reynst þeim erfitt því staðurinn hafi verið þekktur fyrir matinn sem þau buðu upp á.

Allt á góðri siglingu en svo kom Covid

Í desember hafi ákveðið uppgjör átt sér stað og þreyta verið komin í fjölskylduna, sem hefur rekið staðinn í sameiningu síðan 2014.

„Það tekur tíma að láta svona fúnkera, maður þarf að pússa alla vankanta. Svo var þetta bara farið að ganga svo ofboðslega fínt og maður aðeins farinn að geta aðeins, pínu, sleppt höndum en þá byrjuðu þeir að grafa fyrir framan skattinn. Þetta var bara annað Hverfisgötudæmi, þetta byrjaði þar. Hvort að það var í tæpt ár, þeir kláruðu held ég um áramótin, janúar kannski og Covid kemur í febrúar. Þetta var of mikið,“ segir Stella og nefnir einnig hækkandi rekstrarkostnað.

Hún segir árin tíu hafa verið skemmtileg að mestu og hlutirnir hafi gengið vel þar til Covid hafi bankað upp á.

Nýir eigendur hafi eldmóð

„En þetta er búið að vera æðislega gaman,“ segir Stella. Starfsfólkið og fastakúnnarnir hafi verið ljósi punkturinn í gegnum þetta allt saman.

„Það er eiginlega það skemmtilegasta, það er bara fólk,“ bætir hún við.

Mælir Stella með því fyrir alla að prófa að fara út í „business“ eins og hún orðar það.

Þá kveðst hún spennt fyrir því hvað nýir eigendur geri við plássið en nýr bar muni opna í Hafnarstrætinu með áherslu á gott úrval af bjór og lifandi tónlist.

„Þeir eru með þennan sjúklega eldmóð sem maður hafði þegar maður var að byrja. Það er svo gaman og fallegt,“ segir Stella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert