Talsverð gosmóða sést yfir höfuðborgarsvæðinu. Brennisteinstvíoxíð mælist í andrúmslofti og er í svokölluðum gulum gildum, sem merkja sæmileg loftgæði.
Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.
Uppfært:
Eldgosið við Sundhnúkagíga er áfram nokkuð stöðugt en í dag eru liðnir þrettán dagar frá því það hófst.
Einar segir að fylgst sé vel með hraunrennslinu en lítil breyting hafi verið á því í nótt.
„Það fór að renna úr lítilli tjörn sunnan megin við gíginn á sjöunda tímanum í morgun. Það er eins að hún hafi fyllst en nú virðist allt vera komið í sama horf,“ segir Einar.
Einar segir að einnig sé fylgst með framrás hrauntungnanna og sérstaklega á bakvið Sýlingarfell þar sem almannavarnir hafa komið upp myndavél. Hann segir að það sjáist lítil hrauntunga og að fylgst sé með framrás hennar.