Halldór braut ekki siðareglur

Umrædd mynd sem fór fyrir brjóstið á Arnari.
Umrædd mynd sem fór fyrir brjóstið á Arnari. Ljósmynd/press.is

Skopmynd Halldórs Baldurssonar teiknara sem meðal annars sýnir Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, í nasistaklæðnaði er ekki brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

Þetta niðurstaða úrskurðarnefndar BÍ. Hana má sjá hér

Arnar Þór kærði Halldór fyrir þessa framsetningu og sagði að hún væri „hvorki málefnaleg né fyndin, heldur meiðandi og ómálefnaleg“.

Arnar sé málsvari klassísks frjálslyndis

Halldór sagði í andsvörum sínum að hefðbundið sé að teiknari tjái sig með kaldhæðni, ýkjum og líkingarmáli til að koma inntaki myndarinnar til skila.

Segir Halldór jafnframt í andsvörum sínum að Arnar sé málsvari klassísks frjálslyndis, en upphaf nútímaskopmyndarinnar megi rekja til frjálslyndra hugsuða fyrri alda, sem lagt hafi grunninn að einstaklingsfrelsi, mannréttindum og tjáningarfrelsi dagsins í dag. Þeir þættir „séu nauðsynlegir til að skopmyndin og gagnrýnin blaðamennska geti þrifist í greiningum sínum á samfélagslegu ástandi“.

„Með birtingu skopmynda sé staðinn vörður um tjáningarfrelsið, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga. Engum staðreyndum sé hagrætt heldur leitast við að endurspegla gildismat almennings sem birst hafi í opinberri umræðu,“ segir Halldór. 

Getur farið með málið fyrir almenna dómstóla

Í umfjöllun siðanefndar BÍ um málið segir að tjáning Halldórs rúmist innan marka tjáningarfrelsis blaðamanna.

Er þó á það bent að þó Halldór teljist ekki hafa brotið siðareglur þá geti Arnar farið með málið fyrir almenna dómstóla telji hann vegið að æru sinni eða mannorði með almennum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert