„Við erum að ganga í gegnum nokkuð dimma tíma,“ sagði doktor Jane Goodall, mannfræðingur og einn frægasti dýra- og umhverfisverndarsinni heims, í myndbandsávarpi á Velsældarþingi í Hörpu í dag.
Vísaði Goodall til þeirra átaka sem nú geisa í heiminum, mannréttindabrota og umhverfisvandamála.
Velsældarþing er alþjóðleg ráðstefna um velsæld sem embætti landlæknis stendur fyrir en þetta er í annað sinn sem þingið er haldið.
Goodall hefur varið stórum hluta ævi sinnar í að rannsaka simpansa. Í ávarpi sínu sagði hún þá mjög líka mönnum. Helsti munurinn á simpönsum og mönnum væri mannleg greind.
„Aðeins við mennirnir getum rannsakað og reynt að byrja skilja leyndardóma sólkerfisins. Hvernig stendur á því að við, greindasta dýrategundin á jörðinni, séum að eyðileggja okkar eina heimili, jörðina. Það virðist vera sambandsleysi á milli okkar snjöllu heila og mannshjartna okkar,“ sagði Goodall.
Ávarp Goodall má hlusta á í spilaranum hér að ofan.