Ökumaður fólksbifreiðarinnar sem lést í umferðarslysi á Vesturlandsvegi skammt frá Hraunsnefi í Norðurárdal í Borgarfirði á sunnudagskvöld var karlmaður á þrítugsaldri.
Maðurinn var Íslendingur, fæddur árið 1999, og var búsettur hér á landi.
Slysið varð með þeim hætti að fólksbifreið sem ekið var norður skall framan á jeppabifreið sem ekið var til suðurs. Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést en ökumaður og farþegi í jeppabifreiðinni voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Landsspítalann.
Að sögn Jóns Ólasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi, eru tildrög slyssins til rannsóknar en þetta var ellefta banaslysið í umferðinni það sem af er ári.