Útivera fellur niður hjá börnum í mörgum af leikskólum höfuðborgarsvæðisins í dag vegna gosmóðu og mengunar frá eldgosinu við Sundhnúkagíga.
Talsverð mengun frá eldgosinu mælist nú víða á höfuðborgarsvæðinu og á vestanverðu Suðurlandi.
Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun á bandaríska miðlinum Facebook segir að um sé að ræða brennisteinsdíoxíð og súlfatagnir í formi fíngerðs svifryks.
Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, segir Reykjavíkurborg hafa borist tilkynning frá almannavörnum vegna mengunarinnar.
Sú tilkynning hafi verið áframsend á leikskóla borgarinnar sem taki ákvörðun um útiveru út frá mengunarmælingum á hverjum stað.
Í Kópavogi, þar sem tveir mælar sýna rautt merki, er staðan jafnframt metin í hverjum leikskóla fyrir sig.
Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill hjá Kópavogsbæ, segir þó að þegar loftgæði séu jafn óholl og nú þá sé einfaldlega ekki farið út.
Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is. Þó ber að gera fyrirvara við þær merkingar sem þar sjást, eins og fjallað var um fyrr í morgun.