Mæla gegn útivist og gefa út leiðbeiningar

Gosmóðan sést vel á höfuðborgarsvæðinu.
Gosmóðan sést vel á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Björn Jóhann

Reykjavíkurborg hefur sent frá sér tilkynningu með ráðleggingum fyrir borgarbúa vegna gosmóðu og gasmengunar sem liggur yfir höfuðborgarsvæðinu. Þar segir meðal annars:

„Gosmóða getur orsakað slen, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu.

Þeir sem eru síður viðkvæmir geta einnig fundið fyrir einkennum. Ekki er mælt með því að láta ung börn sofa úti í vagni við þessar aðstæður.“

Móðan greinist ekki í hefðbundnum mælingum

Í tilkynningu borgarinnar er útskýrt að gosmóða innihaldi mengun sem hefur meðal annars náð að umbreytast í súlfat, sem greinist ekki í hefðbundnum mælingum á brennisteinsdíoxíði. 

Hærri gildi í mælingum á fínna svifryki gefi vísbendingar um að þessi mengun sé til staðar.

Einnig eru hærri gildi brennisteinsdíoxíðs á mælistöðvum víða á höfuðborgarsvæðinu.

Gosmóða, sem einnig er kölluð blámóða, verður til þegar brennisteinsdíoxíð, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka með tilstuðlan sólarljóssins.

Blágrái liturinn á gosmóðunni myndast þegar sólarljós brotna á ögnum eða úða hennar.

Ráðleggingar vegna mengunarinnar

Almennar ráðleggingar varðandi gasmengun úr tilkynningu Reykjavíkurborgar:

  • Lungna- og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk.
  • Anda sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikilli mengun því það dregur úr þeim styrk sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun.

Ráðstafanir til varnar brennisteinsdíoxíði og annarri mengun innandyra:

  • Lokið gluggum og minnkið umgengni um útidyr.
  • Hækkið hitastigið í húsinu.
  • Loftið út um leið og loftgæði batna utandyra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert