Mengunin berst á endanum inn í hús

„Þetta eru það há gildi að við ráðleggjum fólki að …
„Þetta eru það há gildi að við ráðleggjum fólki að forðast óþarfa útiveru, ekki vera í íþróttaiðkun utandyra og þá sérstaklega börn.“ mbl.is/Hákon Pálsson

Gosmóðan sem nú liggur yfir höfuðborginni kann að halda því áfram út daginn í dag. Seint í kvöld er þó búist við breyttri vindátt og gæti mengunin þá borist yfir á Suðurnes. 

Þetta segir Þorsteinn Jóhannesson sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun í samtali við mbl.is.

„Þetta eru það há gildi að við ráðleggjum fólki að forðast óþarfa útiveru, ekki vera í íþróttaiðkun utandyra og þá sérstaklega börn,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Bendir hann á að það sé ákveðin vörn að halda leikskólakrökkum innandyra. Mengunin berist þó á endanum inn en ekki í sama magni.

Þorsteinn segir mengunina það mikla að þeir sem glíma við veikindi, til dæmis börn og fullorðnir með astma, gætu fundið fyrir auknum einkennum.

Mikilvægt að kynna sér viðbrögð

Mikið álag hefur verið á loftgæðavef Umhverfisstofnunar eftir að bera tók á menguninni í morgun.

„Við töldum okkur fyrir einhverjum gosum síðan vera búin að búa hana undir mikið álag en það var greinilega að sýna sig í morgun að hún var ekki að þola það, segir Þorsteinn spurður út í vefsíðuna.

Þorsteinn ráðleggur fólki að fylgjast vel með þeirra staðsetningu á vefnum loftgæði.is og lesa sér til um viðbrögð við loftmengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert