Myndskeið: „Alvarleg árás á lýðræðið“

„Það er deginum ljósara að þarna er brotið á stjórnarskrárvörðum rétti til að mótmæla,“ segir Pétur Eggerz Pétursson, einn mótmælendanna sem lögregla beitti piparúða gegn fyrir utan ríkisstjórnarfund í síðustu viku.

Í það minnsta sjö mótmælendur hyggjast stefna ríkinu vegna valdbeitingar lögreglu, en mótmælendur segja lögreglu með öllu hafa haft frumkvæði að ófriði og ofbeldi.

Í samtali við mbl.is kveðst Pétur uggandi yfir orðræðu sem hefur verið viðhöfð í kjölfar atviksins enda sé ekkert sem afsaki framferði lögreglu, sem ógni lýðræðislegum réttindum fólks.

„Þetta er tilskipun sem er gefin frá lögreglu að beita skuli piparúða þegar mótmælendur eru rólegir,“ segir Pétur.

Frá mótmælunum fyrir utan ríkisstjórnarfundinn.
Frá mótmælunum fyrir utan ríkisstjórnarfundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er enginn vinstri maður“

Það sé honum óskiljanlegt að lögreglan telji réttlætanlegt að beita slíku valdi gegn friðsamlegum mótmælendum. Til að mynda hafi lögregla dregið konu sem stóð með hendur í vösum niður á jörðina en eins og sjá má í myndskeiði tengt þessari frétt voru einnig börn í barnavögnum þar sem lögregla beitti úðanum.

Þarna séu á ferð einstaklingar úr öllum kimum samfélagsins sem vilji standa vörð um mannréttindi og hlutverk Íslands í þeirri baráttu á alþjóðavettvangi.

Pétur Eggerz er einn þeirra sem hyggjast stefna íslenska ríkinu …
Pétur Eggerz er einn þeirra sem hyggjast stefna íslenska ríkinu vegna valdbeitingar lögreglu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er enginn vinstrimaður. Ég er maður í nýsköpun. Þetta er engin djöfulsins hreyfing, ekki fyrir einhverja pólitíska afstöðu, þetta er mannréttindabarátta sem fólk alls staðar af pólitísku sviði tekur þátt í.“

Hann segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir alvarleika valdbeitingar lögreglu gagnvart mótmælendum enda eigi almennir borgarar fullan rétt á því að mótmæla og fara fram á að stjórn­völd beiti viðskiptaþving­un­um og slíti stjórn­mála­sam­bandi við Ísra­el.

Pétur segir skýrt að mótmælin voru friðsamleg er lögregla hóf …
Pétur segir skýrt að mótmælin voru friðsamleg er lögregla hóf að beita piparúða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn aðdragandi að atvikinu

Í kjölfar atviksins hafi orðræðan snúið mikið að því að einhver aðdragandi hafi verið að því að lögregla beitti piparúða en það sé einfaldlega ekki raunin, sem sjáist skýrt í öllum myndskeiðum af atvikunum.

„Það er einhver gjörningur þar sem mótmælendur leggjast á jörðina og það er tómur ráðherrabíll, bara með bílstjóra, að komast fram hjá og þá mæta lögreglumenn með piparúða á lofti áður en þeir biðja fólk um að færa sig og byrja að draga fólk á hælunum,“ segir Pétur. 

Hann segir lögreglu ekki hafa gætt að öryggi fólks og dregið það af götunni með slíkum hætti að höfuð þess voru ekki vernduð. Lögregla hafi síðan byrjað að úða piparúða í andlit fólks. 

„Þetta var skelfilega alvarleg árás á lýðræðið og okkar stjórnarskrárvarða rétt til þess að mótmæla,“ segir Pétur.

„Þetta var skelfilega alvarleg árás á lýðræðið og okkar stjórnarskrárvarða …
„Þetta var skelfilega alvarleg árás á lýðræðið og okkar stjórnarskrárvarða rétt til þess að mótmæla.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagan mun ekki gleyma

„Við skulum heldur ekki í eina sekúndu missa sjónar á því af hverju við erum þarna komin saman, fólk alls staðar að úr samfélaginu. Það er náttúrulega þjóðarmorð í gangi.“ 

Hann segir ekki skrítið að almennum borgurum ofbjóði að forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, viðhafi orðræðu sem réttlæti árás Ísraelsmanna á flóttamannabúðir á Gasasvæðinu og tali fyrir áframhaldandi stjórnmála,- og viðskiptasamstarfi við Ísraelsríki.

Pétur segir lögreglu ekki hafa gætt að öryggi fólks er …
Pétur segir lögreglu ekki hafa gætt að öryggi fólks er hún úðaði piparúða og dró fólk á hælunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur segir lögreglu hafa tilkynnt að hún hygðist rannsaka atvikið. Síðan þá hafi enginn verið í sambandi við tiltekna mótmælendur til að óska eftir vitnisburðum þeirra eða myndskeiðum af atvikunum. Hann sjái aftur á móti að þó nokkrir úr röðum lögreglunnar fylgist grannt með því sem hann birti á samfélagsmiðlum. 

„Þetta er mögulega í fyrsta sinn í íslenskri sögu sem við sjáum fasíska skipun gefna og í kjölfarið ráðist á mótmælendur. En sagan er ekki að fara að gleyma því, þetta er allt dokúmentarað frá mörgum sjónarhornum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert