Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, klæddi sig úr jakkanum í pontu í þingsal í dag og spurði: „Má ég líka vera með bera handleggi eins og konurnar?“
Þetta gerði hann við ræðu sína undir liðnum störf þingsins í dag þar sem hann gerði jafnan rétt kynjanna að umtalsefni.
Hann benti á að í byrjun janúar 2021 hefðu tekið í gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
„Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allt fólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Með kyni í lögum þessum er átt við konur karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns,“ sagði Tómas.
Hann benti jafnframt á að tekið væri fram að almennt bann við hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, væru óheimil.
„Nú segi ég við ykkur hér; í pontunni standa oft kvenmenn sem eru með bera handleggi og ég spyr: Má ég líka vera með bera handleggi eins og konurnar? Hver er munurinn?“
Birgir Ármannsson, forseti þingsins, minnti Tómas í framhaldinu á að gæta klæðaburðar á Alþingi.