Skólaárið 2023-2024 voru 18,7% starfsfólks við kennslu í grunnskólum án kennsluréttinda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá árinu 2002. Réttindalausu starfsfólki við kennslu fjölgaði um 132 frá hausti 2022.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.
Enn fremur segir að hlutfallslega fleiri karlar en konur hafi verið án réttinda. Meðal karla við kennslu var hlutfallið 26,9% en 16,9% á meðal kvenna.
Í tilkynningunni kemur fram að haustið 2023 hafi 9.475 starfsmenn starfað í 8.415 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi og hafði fjölgað um 0,7% frá fyrra ári. Þar af hafi 5.911 starfað við kennslu. Þá hafi karlkyns kennurum fjölgað.
„Karlar við kennslu voru 1.089 haustið 2023 og hafa ekki verið fleiri síðan 2003. Hlutfall þeirra af starfsfólki við kennslu hefur þó farið lækkandi á þessum tveimur áratugum. Þeir voru 23,3% starfsfólks við kennslu árið 2003 en hlutfallið hefur verið á bilinu 17,5% til 18,7% undanfarinn áratug,“ segir í tilkynningunni.
Þá lækkar meðalaldur starfsfólks við kennslu lítillega frá fyrra ári, úr 46,7 árum í 46,1 ár.
„Ástæða þessarar lækkunar er lækkun meðalaldurs starfsfólks án kennsluréttinda úr 38,0 árum í 35,7 ár. Meðalaldur kennara með kennsluréttindi er 48,5 ár og er hann svo til óbreyttur frá fyrra ári,“ segir í tilkynningunni.