Um 100 manns greinst með kíghósta

Alls hafa um 100 manns greinst með kíghósta frá byrjun …
Alls hafa um 100 manns greinst með kíghósta frá byrjun apríl. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega 100 manns hafa greinst með kíghósta hér á landi frá byrjun apríl.

Þetta staðfestir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. 

Flest smitanna greindust á höfuðborgasvæðinu en einhver hluti hefur greinst í öðrum heilbrigðisumdæmum. 

„Smitin voru flest í byrjun apríl. Í maí var líka slatti, um fjörutíu smit, en í júní hafa til þessa bara greinst sex smit, þannig þetta virðist ekki vera í vexti.“

Átak um bólusetningar bar árangur

Þá segir hún dvínandi fjölda smita benda til þess að viðvaranir embættisins hafi borið nokkurn árangur. 

„Aðsókn í bólusetningar hefur eitthvað aukist, til dæmis voru mun fleiri sem boðuðu sig í apríl heldur en í mars, og svo enn fleiri í maí. Þannig að það átak sem við fórum í til að fá fólk til að bólusetja sig hefur greinilega eitthvað virkað.“

Aftur í sama horf og fyrir faraldurinn

Samkvæmt Guðrúnu er lítill munur á fjöldi smita núna og fyrir kórónuveirufaraldurinn, en hún segir nánast ekkert hafa verið um kíghóstasmit á meðan á faraldrinum stóð. 

Þá segir hún ýmsa þætti hafa spilað inn í aukinn fjölda smita, svo sem ferðalög Íslendinga en fyrsta smitið kemur ávallt til landsins með einhverjum sem var erlendis.

„Það hefur talsvert verið af smitum víða um Evrópu, þannig þessi fjöldi kemur ekki þannig séð á óvart.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert