Umræða um netverslanir líkist umræðunni um bjórbann

Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir orðræðu þingmanna gamaldags.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir orðræðu þingmanna gamaldags. mbl.is/Arnþór

„Ég virðist óvart hafa stigið inn í tímavél til ársins 1988 þegar bjórbannið var rætt hér,“ sagði Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um aukið aðgengi að áfengi á Alþingi í dag.

Þingmenn úr röðum Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Flokks fólksins, og Samfylkingarinnar hófu mál á undan Berglindi og töluðu allir gegn auknu aðgengi að áfengi með netverslun.

Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna var málshefjandi.

Móðgun að segja ríkiseinokun forsendu forvarnastarfs

Berglind segir forvarnir gegn vímuefnaneyslu ungmenna hafa hvergi náð jafnmiklum árangri en á Íslandi.

„Að gefa sér hins vegar þá forsendu að forvarnir hafi gengið vel sé að öllu leyti einokunarsölu ríkisins að þakka er auðvitað móðgun við alla þá aðila sem koma að þessu samhenta átaki að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna,“ sagði Berglind.

Flest rök gegn netverslun áfengis eru rök gegn áfengisneyslu sagði Berglind. Það varði því ekki netsölu umfram aðra sölu áfengis.

„Samt sem áður hafa sömu þingmenn og eru mjög andvígir þessari tegund af sölu, ekki lagt fram tillögur til að takmarka umsvif einokunarverslun ríkisins. Það er þrátt fyrir Áfengis og Tóbaksverslun verslun ríkisins hafi sjálft aukið aðgengi að áfengi með fjölgun sölustaða, margföldun á vöruúrvali og lengingu opnunartíma og já, jafnvel opnað netverslun með áfengi án viðbragða frá Alþingi,“ sagði Berglind.

„Árið er 2024“

Berglind beindi sjónum sínum að orðræðu þingmanna sem eru andvígir netverslun áfengis en þeir tala oft um staðreyndir.

„Það er staðreynd að meðan á neysla íslenskra ungmenna á áfengi hefur farið minnkandi hefur aðgengi snaraukist. Skýrt lagaumhverfi utan um sölu áfengis getur náð sömu lýðheilsumarkmiðum og sumir stjórnmálamenn telja að náist einungis með ríkiseinokun. Ríkiseinokun er ekki forsenda lýðheilsu,“ sagði Berglind að lokum.

„Nú er tími til að vakna. Árið er 2024.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka