Vagninn sem varð að veitingastað

Íslensk gæði að breskum sið hjá Fish & chips-vagninum sem …
Íslensk gæði að breskum sið hjá Fish & chips-vagninum sem hefur breyst í veitingastað við Grandagarð. mbl.is/sisi

„Fólk kvartaði oft yfir því að það væri svolítið rok við vagninn. Nú erum við komin í skjól,“ segir Árni Rudolf Rudolfsson, einn eigenda Fish & chips-vagnsins.

Þar hefur verið seldur fiskur og franskar að breskum sið síðan 2015 í veitingavagni í Vesturbugt við Reykjavíkurhöfn.

Vagninn hvarf skyndilega í vor og óttuðust margir fastagestir um afdrif hans. Skýringin kom á dögunum þegar nýr og glæsilegur veitingastaður var opnaður við Grandagarð.

Á að vera fisklykt í gömlu verbúðunum

„Við opnuðum um miðjan maí. Fólk er smám saman að átta sig á því að við séum búin að færa okkur um 200 metra. Það getur enn lagt bílnum á sama stað og áður og labbað yfir til okkar,“ segir Árni.

Hann segir að lengi hafi staðið til að færa sig úr vagninum og opna veitingastað. Staðsetningin hafi þó skipt höfuðmáli.

„Ég hef alltaf haft augastað á Grandagarðinum, gömlu verbúðunum. Mér finnst að það eigi að vera fisklykt þar, það er alltof mikil ilmvatnslykt þar núna,“ segir hann og hlær.

Líflegt umhverfi á Granda

Árni sætti færis þegar Granólabarinn lagði upp laupana, keypti reksturinn og hóf að innrétta veitingastaðinn.

Aðeins er pláss fyrir um 12-15 matargesti í einu en Árni segir að eftir sem áður sé lagt upp með að gestir taki matinn með sér.

Ef vel viðrar er þó hægt að sitja fyrir utan en þar er oft þægileg stemning í góðu veðri. Fjöldi annarra veitingastaða er í nágrenninu og margir á ferðinni.

„Þetta svæði hefur lifnað mikið við og hentar okkur vel. Við ætlum að vera hérna til langframa og gerum hlutina af natni.“

Viðtalið við Árna má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert