Alvarleg stunguárás í heimahúsi í Súðavík

Frá Súðavík.
Frá Súðavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Karlmaður var stunginn með hnífi í heimahúsi í Súðavík seint í gærkvöld og var hann fluttur með sjúkraflugvél á sjúkrahús í Reykjavík. Ungur karlmaður, sem er grunaður um verknaðinn, var handtekinn á staðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum í dag en þar segir að lögreglu hafi borist tilkynning um átök í heimahúsi í Súðavík laust fyrir miðnætti í gær.

Karlmaðurinn sem var fyrir stunguárásinni var með lífshættulegt stungusár sem þurfti að meðhöndla frekar en hann er nú kominn úr lífshættu.

Ungur karlmaður var handtekinn á staðnum og var færður í fangelsið á Ísafirði. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum mun í dag leggja fram kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að hann sæti gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

„Okkar menn voru fljótir að ná tökum á vettvangi og var sá grunaði handtekinn strax og fluttur á lögreglustöðina. Hann verður færður fyrir dómara á eftir,“ segir Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is.

Hann segir rannsókn málsins er á frumstigi og ekki sé tímabært að gefa frekari upplýsingar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert