Athafnaleysi að koma ábendingum ekki áleiðis

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það eðlilegt að …
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það eðlilegt að koma ábendingum áleiðis til lögreglunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur það athafnaleysi af sinni hálfu að aðhafast ekkert í málefnum netverslana með áfengi og sendi af þeim sökum bréf til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Áhugaverð tilkynning ráðherra

Hann segist ekki ætla að tjá sig um bréf Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra sem birtist fyrr í dag á vef Stjórnarráðsins en segir efni þess áhugavert.

Þar kom fram að ráðuneyti Stjórn­ar­ráðsins og ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar eigi ekki að hafa af­skipti af því hvort eða hvernig mál séu tek­in til rann­sókn­ar sem saka­mál.

„Þegar ég kom í ráðuneytið var mér það ljóst að það voru mál sem kölluðu á einhverja athygli eða athafnir,“ segir Sigurður og vísar þar með til ársskýrslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

„Sem ráðherra þessa málaflokks [...] er það fyllilega eðlilegt að mínu mati og okkar í ráðuneytinu að ráðherra geti komið á framfæri ábendingum til sjálfstæðra eftirlitsaðila um möguleg brot gegn þeim einkarétti,“ segir Sigurður Ingi.

Fjármálaráðherra hefur yfirstjórn á einkarétti ríkisins á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem og framkvæmd laganna. Sigurður Ingi segir að búið sé að afla lögfræðiálits um einstök mál en fullyrðir ekki um að eitthvað sé lögmætt eða ekki. 

Telur bréfið ekki vera pólitísk afskipti

„Það hvarflar ekki að mér að hafa áhrif á rannsókn annarra sjálfstæðra eftirlitsaðila,“ segir Sigurður.

Spurður hvort hann telji þetta vera pólitísk afskipti af sinni hálfu svarar Sigurður Ingi því neitandi og vísar til efnis bréfsins sem hann sendi til lögreglunnar um að athygli hennar væri vakin á þessu. 

„Við erum auðvitað ekki að hlutast til á nokkurn skapaðan hátt,“ segir Sigurður Ingi. 

Spurður hvort hann viti af hverju lögreglan og ríkissaksóknari hafi ekki farið með mál netverslana lengra segist Sigurður Ingi ekki þekkja það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert