Eitt barn gæti opnað skólann á ný

Frá skólahaldi í Finnbogastaðaskóla árið 2017. Þá voru tveir nemendur …
Frá skólahaldi í Finnbogastaðaskóla árið 2017. Þá voru tveir nemendur í skólanum. mbl.is/Golli

Stefnt er að því að opna Finnbogastaðaskóla á ný næsta haust, en skólinn hefur ekki verið starfræktur síðan árið 2018, þegar síðustu nemendur sátu þar á skólabekk. 

Allt mun það þó breytast næsta haust þegar átta ára barn flytur í sveitina. 

Þetta segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps á Ströndum, í samtali við mbl.is.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps á Ströndum, segist bjartsýn fyrir aukinni …
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps á Ströndum, segist bjartsýn fyrir aukinni aðsókn í Finnbogastaðaskóla. Ljósmynd/Aðsend

Gæti kostað 20 til 25 milljónir 

„Þetta er allt í vinnslu enn þá, en við erum að fá eitt barn hingað og ætlum svo sannarlega ekki að láta það vera skólalaust. Þá er bara spurning hvernig við gerum þetta.“

Engir starfsmenn hafa verið ráðnir í vinnu hjá skólanum, en Eva segir hreppsnefnd ekki geta tekið ákvörðun um slíkt þar til skoðað hefur verið hve mikið fjármagn sé til fyrir því.

„Það er sagt við okkur að það geti kostað 20 til 25 milljónir að opna skólann formlega upp á nýtt, en við þurfum eitthvað skoða það.“

Nemendur Finnbogastaðaskóla leika sér á lóð skólans á árum áður. …
Nemendur Finnbogastaðaskóla leika sér á lóð skólans á árum áður. Mynd úr safni.

Bjartsýn fyrir aukinni aðsókn

Spurð hvort hún vonist til þess að opnunin muni auka aðsókn í skólann, segist Eva vera nokkuð bjartsýn fyrir því. 

„Það gæti allt eins gerst, þótt það sé eitthvað sem við vitum ekki alveg strax,“ segir hún og heldur áfram:

„Fólk er farið að fatta að það getur unnið hvar sem er og það er bara allt öðruvísi að búa út á landi núna heldur en það var í gamla daga. Við erum náttúrulega komin með ljósleiðara og allt það sem þarf.“

Þá segist hún áætla að eitthvað muni bætast í nemendahópinn eftir opnunina. 

„Við vitum til dæmis af einu barni í viðbót sem gæti verið að flytja hingað, þannig það er allt að gerast hjá Finnbogastaðaskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert