„Ekki millimetri út fyrir“

G. Reynir Georgsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, á fundinum í gær.
G. Reynir Georgsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, á fundinum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Takmarkið með framkvæmdinni á um 10,4 kílómetra vegkafla um Teigsskóg á sunnanverðum Vestfjörðum var að skila verkinu líkt og vegurinn hefði alltaf verið þarna, þ.e. líkt og hann hefði fallið af himnum ofan og lagst yfir svæðið.

Það mun koma í ljós á komandi sumri og næstu árum hvernig til tókst en samdóma álit Vegagerðarinnar, Náttúrustofu Vestfjarða, Umhverfisstofnunar og verktaka er að framkvæmdin hafi tekist frábærlega.

Þetta kom fram í máli G. Reynis Georgssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni, á Umhverfismatsdeginum sem er árleg ráðstefna Skipulagsstofnunar um umhverfismat sem var haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í gærmorgun. Þar var sjónum sérstaklega beint að eftirfylgni umhverfismats við framkvæmdir og starfsemi.

Umdeildar framkvæmdir

Vegurinn um Teigsskóg var opnaður í lok síðasta árs. Verkefnið snerist um endurnýjun Vestfjarðarvegar um Gufudalssveit og reyndust framkvæmdirnar umdeildar, því bæði landeigendur og náttúruverndarsamtök mótmæltu þeim.

Vegurinn er hluti af stærri framkvæmd við uppbyggingu Vestfjarðarvegar en framkvæmdir hafa staðið yfir við þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Gott samstarf við vélamenn 

Reynir sagði á ráðstefnunni það hafa verið mikla áskorun að leggja veginn um Teigsskóg alfarið í nýju vegstæði. Um viðkvæmt svæði var að ræða og mikil krafa gerð um að skila verkefninu í sambærilegri ásýnd og áður en framkvæmdir hófust.

Gestir í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins.
Gestir í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áður en hafist var handa hélt Vegagerðin námskeið með verktakanum Borgarverki þar sem gott samtal náðist, m.a. við vélamenn sem áttu eftir að vinna við veginn. Að sögn Reynis fengu þeir strax mikinn áhuga á verkefninu.

„Við lærðum mikið af þeim og þeir lærðu vonandi mikið af þeim sem héldu fyrirlestur um hvernig átti að gera þetta,“ sagði hann.

Þverfaglegur vinnuhópur starfaði síðan saman út allt verkefnið, sem samanstóð af Vegagerðinni, Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Vestfjarða og verktaka. Farið var í reglulegar úttektir af hálfu þessara aðila á meðan á framkvæmdum stóð.

Vinna við lagningu klæðingar á veginum um Teigsskóg síðasta haust.
Vinna við lagningu klæðingar á veginum um Teigsskóg síðasta haust. Ljósmynd/Vegagerðin

Ekki slegið á varptíma 

Þegar framkvæmdir hófust var skógurinn sleginn á fyrirhuguðu vegsvæði með svokölluðu Mulcher-hjóli. Hvorki var slegið á varptíma né þegar skógurinn var laufgaður. Spænir sat eftir í skógarsvæðinu.

Að mati Reynis var útkoman frábær með tilliti til þess sem leitast var eftir. Allt var gert í vegstæðinu „og ekki millimetri út fyrir“ að því er verktakar greindu frá. Fornminjar fundust á leiðinni. Þær voru skrásettar af fornminjaverði en fóru síðan undir svæðið það sem vegurinn var lagður. 

Vegurinn um Teigsskóg áður en framkvæmdir hófust.
Vegurinn um Teigsskóg áður en framkvæmdir hófust. mbl.is/Helgi Bjarnason

Svarðlagi og torfi var rutt upp með tenntri skóflu og það geymt í haugum til hliðar við veginn. Reyndist það best að geyma torfið í haugum til að koma í veg fyrir þornun. Síðar var torfinu komið fyrir ofan á mold. 

Reynir nefndi einnig í erindi sínu mikilvægi þess að endurheimta sjávarfitjar á svæðinu en þær njóta verndar. Besti staðurinn til að geyma sjávarfitjar var ofan á öðrum sjávarfitjum.

Umhverfismatið er upphafið 

Reynir sagði að hópurinn sem hefði unnið að verkefninu á þessum tíma hefði verið góður og haldið gleðinni allan tímann. „Við leystum alltaf vandamálin sem komu upp og við vorum oftast sammála.“

G. Reynir Georgsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni.
G. Reynir Georgsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nefndi hann í lokin að almennt séð væri umhverfismat upphaf framkvæmda. Það væri jafn mikilvægt og áhættugreining verkþátta.

„Fyrir mér er þetta svo sjálfsagt mál og þetta er svo mikilvægt mál og þetta hefur stýrt algjörlega hvernig við höfum unnið framkvæmdina í þverun Þorskafjarðar. Í Teigsskógi þá er það umhverfismatið og annað slíkt sem hefur verið númer eitt, tvö og þrjú í því hvernig framkvæmdin hefur verið keyrð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert