Enok réðst á mann og birti myndefni á Snapchat

Enok Vatnar Jónsson var dæmdur fyrir tvær líkamsárásir í Héraðsdómi …
Enok Vatnar Jónsson var dæmdur fyrir tvær líkamsárásir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samsett mynd

Enok Vatnar Jónsson, sjómaður og unnusti Birgittu Lífar Björnsdóttur áhrifavalds, hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir aðild að tveimur líkamsárásum.

Dómurinn hljóðar upp á sex mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Annar maður fékk einnig skilorðsbundinn dóm upp á fjóra mánuði í öðrum hluta málsins.

Þá er Enoki gert að greiða rúmar 2,5 milljónir í sakarkostnað til ríkissjóðs auk þess að greiða tæpa milljón krónur í miskabætur til tveggja þolenda í málinu. 

Í fyrra málinu er Enok sagður hafa veist að þolanda í málinu með hnefahöggum í andlit, höfuð og líkama, auk sparka í líkama.

Í hinu er hann sagður hafa kýlt mann að tilefnislausu á dansgólfi. 

Henti manninum niður tröppur

Í fyrra málinu er Enok einnig sagður hafa hent manninum niður tröppur og hann ásamt hinum ákærða í málinu í kjölfarið sparkað ítrekað í manninn og traðkað á höfði hans þar sem hann lá.

Við atlöguna brotnaði viðbein, skurður opnaðist á eyrnasnepli, opið sár á höfði myndaðist og yfirborðsáverka víðsvegar um líkama.

Fram kemur í atvikalýsingu af málinu að maðurinn fékk líflátshótun frá Enoki á meðan hann var inni á skemmtistað. Í þeim var honum tjáð að Enok og félagar hans biðu hans fyrir utan staðinn.

Hringdi á lögreglu og bað um aðstoð dyravarða

Maðurinn hafi þá gripið til þess ráðs að hringja á lögreglu eftir aðstoð auk þess að biðja dyraverði um aðstoð.

Skömmu síðar veittist Enok og tveir menn að honum inni á skemmtistaðnum. Var þeim öllum vísað út. Dyraverðir sinntu í engu ósk mannsins um aðstoð.

Í framhaldinu hafi þeir veist að manninum fyrir utan staðinn og honum svo hent niður tröppur á nærliggjandi veitingastað.

Enok var handtekinn eftir atvikið og tjáði lögreglu að um væri að ræða hefnd fyrir atvik sem hafði átt sér stað áður.

Þolandi í málinu viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa stungið Enok með hnífi um áramótin þar á undan.

Enok neitaði við skýrslutöku daginn eftir að gefa upp nöfn þeirra tveggja sem voru með honum í atlögu að þolanda í málinu.

Kýldur að tilefnislausu á dansgólfi 

Í hinu tilvikinu segir frá manni sem var að dansa á skemmtistað þegar hann hafi fengið þung hnefahögg frá mönnum sem hann þekkti ekki. Hann gat þó nafngreint Enok eftir að vinkona hans gat sagt honum frá því hver ætti í hlut.

Hann ítrekaði við skýrslutöku að hann þekkti ekki mennina sem réðust á hann að öðru leyti.

Við skýrslutökur segir að maðurinn sem var kýldur í málinu hafi verið á dansgólfi og ýtt við Enoki með bakinu þegar verið var við dansiðkun. Enok hafi brugðist við með því og kýla hann og við það féll hann. Í framhaldinu fylgdu þrjú til fjögur högg í andlit mannsins.

„Hvað er þessi gæji að reyna að jumpa“

Enok sagðist ekki kannast við atvikið en í gögnum lögreglu sást hins vegar að Enok hafði sent snapchat af manninum blóðugum í Austurstræti.

Hafði hann skrifað við snapchat-skeytið „Hvað er þessi gæji að reyna að jumpa,“ með hlæjandi „emoji“ við.

Þá er Enok sagður hafa hæðst að manninum þar sem hann sat fyrir utan skemmtistaðinn og beið eftir sjúkrabíl.

Þessi gögn lagði ákæruvaldið fram. 

Niðurstaðan var eins og áður sagði að dæma Enok í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert