Hvetur til setningu ungmennastefnu

Lilja Rannveig Sigurðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins.
Lilja Rannveig Sigurðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór

„Það er nauðsynlegt að hópurinn á bakvið stórar ákvarðanir endurspegli breidd þar sem mismunandi sjónarmið liggja að baki og framtíðarsýnin er til staðar á sama tíma og við höfum reynslu fortíðarinnar,“ sagði Lilja Rannveig Sigurðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Lilja sagði það mikilvægt að hleypa unga fólkinu að ákvarðanatöku í samfélaginu. Það verði að skoða þennan hóp heildstætt.

Framsókn unnið að gangi samfélagsins

„Við höfum farið af stað í miklar kerfisbreytingar í málefnum barna og erum að stíga fyrstu skrefin þar og það er hægt að horfa til þeirra vinnu. Ég myndi vilja að ríkisstjórnin myndi setja sér sérstaka ungmennastefnu með aðgerðaáætlun og ég hvet hana eindregið til þess,“ sagði Lilja.

Lilja sagði þingið hafa þurft að kljást við fjölda mála á kjörtímabilinu og á því fyrra. Nefndi hún heimsfaraldurinn, skriðuföll, eldgos, jarðskjálfta og flutning heils bæjarfélags. Jafnframt hafi fjöldi vopnaðra átaka aldrei verið meiri í heiminum á sama tíma frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

„Allt þetta hefur áhrif til skemmri og lengri tíma, en þrátt fyrir þessar aðstæður höfum við í Framsókn unnið hér statt og stöðugt að því að halda samfélaginu gangandi. Við höfum komið fram með fjölda mála sem eru samfélaginu til bóta og við erum hvergi nærri hætt,“ sagði Lilja.

Aldrei fleiri íbúðir byggðar

Aldrei hafa fleiri íbúðir verið byggðar að sögn Lilju og bendir hún á ríkisstjórnin hafi tekið þátt í gerð kjarasamninga og komið til móts við barnafólk. Nefndi hún sem dæmi hækkun á þaki fæðingarorlofs og hækkun barnabóta.

„Þrátt fyrir fjölda áskorana síðastliðin ár þá vitum við samt að mörg verkefni bíða okkar. Framsókn mun áfram ganga í þau mál sem þarf að vinna, bæði þau mál sem eru umdeild og vekja mikla athygli og þau sem fá ekki sömu athygli. Við munum halda áfram vinna fyrir ykkur og smyrja tannhjólin til að allt gangi eins og á að ganga,“ sagði Lilja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert