Íslensku málverki bjargað í Bør­sen

Talið er að 99% þeirra listaverka sem voru í Børsen …
Talið er að 99% þeirra listaverka sem voru í Børsen hafi verið bjargað, m.a. málverki af Heklu. AFP/Ida Marie Odgaard

Talið er að málverki af Heklu eftir skagfirska listmálarann Jóhannes Geir Jónsson hafi verið bjargað úr brunanum í dönsku kauphöllinni Børsen í apríl. Málverkið var gjöf frá Félagi íslenskra stórkaupmanna.

Þegar Stefán S. Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, sá myndir í fjölmiðlum af listaverkum sem borin voru út úr brennandi kauphöllinni rifjaðist upp fyrir honum gjöf sem Félag íslenskra stórkaupmanna hafði gefið dönsku systurfélagi sínu í stjórnartíð Stefáns og hékk í Børsen.

Árið 1992 stóð danska stórkaupmannafélagið fyrir miklum hátíðahöldum í tilefni 250 ára afmæli félagsins en Stefán sótti veisluna.

Kannaði afdrif verksins

„Þegar við sáum hvað þeir gerðu mikið með þetta ákváðum við nú að sýna þeim þann sóma og þakka fyrir gott samstarf til margra ára með því að gefa þeim þetta málverk eftir Jóhannes Geir,“ segir Stefán og bætir við að seinna hafi hann frétt af málverkinu af Heklu í „flottasta herberginu í Børsen“.

Í kjölfar brunans í kauphöllinni ákvað Stefán að kanna afdrif hins íslenska málverks en það var hægara sagt en gert að fá svör.

Loks náði hann þó sambandi við hagfræðinginn Christian Sestoft sem settur hafði verið verkefnastjóri yfir endurreisn kauphallarinnar en hann gat sagt Stefáni að allar líkur væru á að verkið hefði bjargast.

Tekist hefði að bjarga nær öllum listaverkum úr byggingunni auk þess sem verkið eftir Jóhannes var heppilega staðsett í þeim hluta Børsen sem ekki brann.

Nær öllum verkum bjargað

Í samtali við Morgunblaðið lýsir Sestoft því hve vel hafi tekist til við að bjarga munum úr brunanum en talið er að 99% listaverkanna sem voru í Børsen hafi verið bjargað.

„Nokkrum mínútum eftir að eldurinn braust út voru sérfræðingar frá ríkislistasafninu mættir á vettvang því safnið er aðeins 500 metrum frá Børsen. Allir höfðu verið á leið til vinnu en héldu bara beint áfram að Børsen,“ segir Sestoft.

Til að byrja með var listaverkunum komið fyrir í anddyrum nærliggjandi bygginga en þaðan voru þau flutt í fylgd lögreglu í geymslur danska ríkislistasafnsins þar sem unnið er að skrásetningu verkanna.

„Okkar kenning er að málverkið af Heklu sé í góðu standi og meðal hinna málverkanna á ríkislistasafninu,“ segir Christian Sestoft.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert