Kanna að hefja gjaldtöku við Gróttu á Nesinu

Náttúrufegurðin heillar marga úti við Gróttu á Seltjarnarnesi.
Náttúrufegurðin heillar marga úti við Gróttu á Seltjarnarnesi. mbl.is/Hari

Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi eru með það til skoðunar hvort eigi að hefja gjaldtöku á bílastæðinu við Gróttuvita.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir í samtali við mbl.is að þessi mál hafi verið rædd óformlega innan bæjarráðs en svæðið í kringum Gróttuvita er gríðarlega vinsæll áningarstaður ferðmanna og ekki síst hjá erlendum ferðamönnum.

„Við erum að skoða þann möguleika á að hefta akandi umferð inn á svæðið með einhverjum hætti. Það er ekki langt síðan rúta með ferðamenn í norðurljósatúr keyrði út í flag og stórskemmdi svæðið. Það er reyndar búið að laga það,“ segir Þór við mbl.is.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Þór segir að oft komi ferðamenn með rútum og tjaldbílum sem er lagt á bílatæðinu en ekki sé aðstaða á svæðinu eins og salernisaðstaða. Því hafi komið til tals að kanna þann möguleika á að hefja gjaldtöku sem gæti nýst til að bæta og byggja upp svæðið, koma upp hreinlætisaðstöðu þannig að hægt væri að taka betur á því fólki sem komi á staðinn.

Tíundi vinsælasti áfangastaður ferðamanna

„Þetta er inn í miðju friðuðu svæði þar sem er varp og viðkvæmt fuglalíf sem okkur er umhugað um og er svæði sem við viljum verja,“ segir bæjarstjórinn og bendir á að svæðið í kringum Gróttuvita hafi verið tíundi vinsælasti áfangastaður ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári.

Þór segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um gjaldtökuna. „Þetta er á hugmyndastigi og við erum að afla okkur tilboða, skoða þá möguleika sem eru í boði varðandi gjaldtökumálin og kanna hvernig aðrir eru að framkvæma hlutina. Hann segir að ef gjaldtakan verði að veruleika þá muni það ekki eiga sér stað fyrr en í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert