Liðin tíð að hernaður sé drifkraftur tækniframfara

David van Weel er aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO).
David van Weel er aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO). mbl.is/Eyþór Árnason

Atlantshafsbandalagið hefur sett á fót sjóði sem ætlað er að styrkja nýsköpunarfyrirtæki í von um að tækniþekking þeirra efli varnir ríkja bandalagsins.

Milljarðar evra liggja í ólíkum sjóðum Atlantshafsbandalagsins sem eyrnamerktir eru nýsköpunarverkefnum. Bandalagið bindur vonir við að lykillinn að öflugri vörnum til framtíðar liggi í háskólasamfélaginu.

Þetta kemur fram í máli David van Weel, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Atlantshafsbandalaginu, sem staddur er á Íslandi.

Biðja fyrirtæki um lausnir í varnarmálum 

Hann segir það vera liðna tíð að hernaður sé drifkraftur tækniframfara eins og var á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. 

„Nú sjáum við að tækninýjungar koma yfirleitt frá nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa engin tengsl við varnarmál,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Það sem við gerum í þessu verkefni er að leggja spurningar fyrir háskólasamfélagið og hvetja þá sem þar eru til að glíma þau vandamál sem við teljum að þurfi að leysa. Sem dæmi má nefna að við höfum skorað á háskólana að leggja fram lausnir við neðansjávareftirlit.

Það er mjög erfitt því það er ekki hægt að nota ratsjár og annars konar tækni sem hægt er að nota þegar fylgst er með farartækjum á lofti svo dæmi sé nefnt,“ segir van Weel.

Bandaríski kafbáturinn USS California úti fyrir ströndum Íslands í janúar.
Bandaríski kafbáturinn USS California úti fyrir ströndum Íslands í janúar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Styrkja fyrirtæki sem lofa góðu

Nýleg dæmi eru um að skemmdarverk hafi verið framin á gasleiðslum og skorið á orkuleiðslur sem liggja neðansjávar og er það hvatinn að þessu verkefni. 

„Því spyrjum við fólk í nýsköpun hvaða tækni hægt er að nota til þess að fylgjast með þeim sem eru neðansjávar. Okkur er sama hvaða tækni er notast við og það eru hundruð fyrirtækja sem eru að vinna að lausnum,“ segir hann.

„Þau sem okkur finnst lofa góðu hafa fengið styrki frá Atlantshafsbandalaginu þannig að þau geti samhliða notið velgengi meðal almennra notenda sem og þjónað tilgangi í varnarmálum um leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert