Loftmengun einskorðast við Reykjanes

Gasdreifingarspá klukkan 7-13 í dag.
Gasdreifingarspá klukkan 7-13 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Enn er loftmengun á suðvesturhorninu en hún er ekki lengur á höfuðborgarsvæðinu, heldur einskorðast hún við Reykjanesið, að sögn Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. 

„Það eru aðeins hækkuð gildi á svifryksmælum í Reykjanesbæ þessa stundina og hefur verið í nótt,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Í dag og á morgun er spáð suðaustanátt á suðvesturhorni landsins. Lítilsháttar úrkomu er spáð í dag en það bætir í úrkomu í kvöld. 

„Stefnan á gosmekkinum er eiginlega beint yfir Keflavík og Reykjanes,“ segir hún.

Fer eftir úrkomu og vindum

Er búist við því að loftmengun verði minni eftir daginn í dag?

„Það fer aðeins eftir því hvort það fari að rigna eitthvað af ráði. Við verðum aðeins að leyfa tímanum að leiða það í ljós,“ segir Ingibjörg.

Það fari aðallega eftir því hvort það verði nógu hvasst og nógu blautt til þess að loftið nái að hreinsa sig almennilega.

Loftgæðamælar Umhverfisstofnunar í morgunsárið.
Loftgæðamælar Umhverfisstofnunar í morgunsárið. Kort/Veðurstofa Íslands

Léttskýjað fyrir norðaustan

Á norðaustanverðu landinu verður léttskýjað í dag og á morgun, en sums staðar þoka við ströndina, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.

Á föstudaginn er spáð austlægri eða breytilegri átt, golu eða kalda.

„Að mestu bjart eystra, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt vestantil. Fremur hlýtt, einkum inn til landsins,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurvefur mbl.is.

Í dag og á morgun er spáð suðaustanátt á suðvesturhorni …
Í dag og á morgun er spáð suðaustanátt á suðvesturhorni landsins. Ljósmynd/Ísak Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka