Óvænt stakkaskipti í kvikunni

Fyrstu greiningar á kvikunni hafa komið mörgum jarðvísindamönnum í opna …
Fyrstu greiningar á kvikunni hafa komið mörgum jarðvísindamönnum í opna skjöldu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikan úr eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina er ólík fyrirrennurum sínum að ýmsu leyti. Í raun er hún skyldari kvikunni úr Geldingadalagosinu á fyrstu dögum þess í mars 2021, ef marka má fyrstu greiningar.

Þetta segir Olgeir Sigmarsson, jarðvísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands,í samtali við mbl.is.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti á dögunum fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn úr hrauninu við Sundhnúkagíga.

Búið er að greina tvö sýni, gjósku annars vegar og hraun hins vegar, sem komu upp við Sundhnúkagígaröðina þegar gosið hófst 29. maí.

Samanburður á efnasamsetningu basaltglers á milli eldgosa.
Samanburður á efnasamsetningu basaltglers á milli eldgosa. Graf/Jarðvísindastofnun HÍ

Eins og í fyrsta gosinu 2021

Þegar búið var að efnagreina hraunið ráku vísindamenn augun í eitt athyglisvert:

„Það er sérstaklega þetta hlutfall á kalínoxíði á móti títanoxíði, sem segir okkur nokkurn veginn af hvaða stofni þessi kvika er,“ segir Olgeir við mbl.is.

Hraunið úr fyrri eldgosum á Sundhnúkagígaröðinni hafa verið með frekar hátt hlutfall kalínoxíðs á móti títanoxíði, svipað því sem kom upp á yfirborðið í eldgosinu við Litla-Hrút á síðasta ári og jarðeldunum í Meradölum árið 2022.

„Aftur á móti í byrjun gossins í Geldingadölum í mars [2021], þá kom kvika með mjög svipuðu kalín-títanhlutfalli og við erum að sjá koma upp núna,“ segir hann og ítrekar: „Það er eins og kvikan sem er að koma upp núna sé af sama stofni og sú sem kom fyrst upp í Geldingadölum.“

Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu í ágúst að kvik­an, sem síðan þá hefur komið upp á yfirborðið, er ólík nokk­urri þeirri kviku sem sést hef­ur áður á Reykja­nesskaga.

Nú virðist þó aftur hafa orðið breyting á kvikunni.

Vísindamenn taka sýni úr hrauninu.
Vísindamenn taka sýni úr hrauninu. Ljósmynd/Jarðvísindastofnun HÍ

Best að spyrja Skolla

Óvænt líkindi þessara tvennra eldsumbrota – sem urðu með þriggja ára millibili – teljast athyglisverð af ýmsum ástæðum.

Ein ástæðan er sú að um sitt hvora eldstöðina er að ræða, þó Olgeir segi reyndar að það sé aðeins „skilgreiningaratriði“, skilgreiningin á eldstöðvakerfum á Íslandi eigi ekki vel við um Reykjanesskaga.

Önnur ástæða er sú að kvikan sem kemur upp við Sundhnúkagíga á fyrst viðkomu í kvikuhólfi undir Svartsengi. Eftir stutta áningu þar spýst hún síðan á yfirborð, en þá hefur kvikan kólnað, kristallast smá og kemur því yfirleitt þróaðri kvika út.

Sú var ekki staðan í eldgosinu í Geldingadölum.

En hvernig getur þá staðið á því að kvikan sem nú leitar upp á yfirborð virðist vera af sama stofni og sú sem kom í Geldingadölum 2021?

Olgeir hlær. „Þú verður að spyrja djöfulinn að því.“

Gosið í Geldingadölum við Fagradalsfjall í mars 2021.
Gosið í Geldingadölum við Fagradalsfjall í mars 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á eftir að mæla betur

„Þetta er kvika af sama stofni. Það er það eina sem við getum sagt og það er alveg hugsanlegt að kvikan komi frá mörkum skorpu og möttuls,“ bætir hann við.

Olgeir segir enn fremur að færa megi líkur að því að breytingin gæti hafa orðið þegar land tók aftur að rísa í apríl. Þá stóð gos enn yfir og taldist landrisið þess vegna óvenjulegt, en nú horfum við upp á svipaða sviðsmynd í því gosi sem hófst 29. maí.

Hann tekur fram að aðeins sé um að ræða fyrstu greiningar á hrauninu og vangaveltur um þær. Fleira mun koma í ljós er lengra líður.

„Hvort þetta er sama kvika sem kom 2021, við vitum það ekki enn þá. Það á eftir að mæla þetta betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert