Reykvíkingar óánægðastir á höfuðborgarsvæðinu

Reykjavíkurborg kom verst út af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í svörum …
Reykjavíkurborg kom verst út af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í svörum þátttakenda um þjónustu sveitarfélaga. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavík kom verst út af sveitarfélögum á höfuðborgasvæðinu í nýrri íbúakönnun landshlutanna um þjónustu sveitarfélaga.

Þá eru Eyjamenn ánægðastir landsmanna með þjónustu sveitarfélagsins, eða um 80%.  

„Er það sveitarfélag að standa sig verr?“

Vífill Karlsson, hagfræðingur sem kom að verkefninu, ræddi við mbl.is um niðurstöður könnunarinnar, en hann segir óljóst hvað veldur slakri stöðu Reykjavíkurborgar. 

„Það er ekki hægt að sjá það úr rannsókninni hvers vegna borgarbúar virðast ósáttari en aðrir með þjónustu, en mögulega hafa þeir einhverjar væntingar um borgarlíf, á meðan landsbyggðin leitast frekar eftir kyrrð og ró eða nálægð við náttúru,“ segir Vífill. 

„Maður fer þá að velta fyrir sér hvort það geti verið að Reykjavík sitji uppi með kröfuhörðustu íbúanna? Eða er það sveitarfélag að standa sig verr að einhverju leyti?“

Hægt að draga ályktanir af niðurstöðunum

Aðspurður segir Vífill niðurstöðurnar endurspegla viðhorfið í samfélaginu en þátttakendur voru um 11.500 talsins. 

„Þetta segir alveg sitt, og niðurstöðurnar eru í samræmi við raunveruleikann. Til dæmis sáum við unga fólkið koma verst út úr könnuninni, sem er í samræmi við aðrar svipaðar kannanir.“

Hamingja mældist mest í Skagafirði, á Snæfellsnesi og Héraði.
Hamingja mældist mest í Skagafirði, á Snæfellsnesi og Héraði. mbl.is/Sigurður Bogi

Hamingjan mikil í Skagafirði

Meðal annarra þátta sem athugaðir voru í könnuninni var almenn hamingja íbúa. Mest mældist hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og Héraði. 

Þá voru íbúar Stranda og Reykhóla ásamt Vestur-Húnavatnssýslu óhamingjusamastir.  

Könnunin hefur einu sinni áður verið framkvæmd á landinu öllu, árið 2020, en Vífill segir niðurstöður í ár svipaðar fyrri rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert