Stjórnarformaðurinn með barn á brjósti var Halla

Eliza Reid forsetafrú og Halla Tómasdóttir næsti forseti Íslands.
Eliza Reid forsetafrú og Halla Tómasdóttir næsti forseti Íslands. Samsett mynd

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, segist fyrst hafa uppgötvað hvernig staða jafnréttismála væri á Íslandi þegar hún sat fund með kvenkyns stjórnarformanni fyrir rúmum tuttugu árum á meðan hún gaf barni sínu brjóst.

Konan reyndist vera Halla Tómasdóttir sem mun brátt taka við embætti forseta Íslands af Guðna Th. Jóhannessyni, eiginmanni Elizu.

Eliza segir frá þessu í viðtali við kanadíska ríkisútvarpið.

„Eitt af því sem ég man eftir er þegar kona, sem var stjórnarformaður fyrirtækisins sem ég vann hjá, hélt fund á sama tíma og hún gaf nýfædda barninu sínu brjóst,“ svarar Eliza og tekur fram að enginn hafi kippt sér upp við brjóstgjöfina.

„Það áhugaverða við þetta er að þessi kona var kjörin forseti Íslands um síðustu helgi,“ segir Eliza en að þetta sé dæmi um hve lítið land Ísland er.

Stolt af því að vera virk og sýnileg

Eliza segir því meira sem unnið er að kynjajafnrétti í landi því meiri velgengni nýtur þjóðin. Þær þjóðir eru friðsamlegri, hamingjusamari og með hærri meðalaldur.

„Þetta er eitthvað sem Ísland sem þjóð vinnur að,“ segir Eliza.

Hún segir Ísland vinna markvisst að jafnrétti til að mynda með því að bjóða báðum foreldrum upp á fæðingarorlof og láta ríkið taka þátt í kostnaði við daggæslu barna.

Spurð hvað Eliza sé stoltust af þegar hún lítur til baka yfir tímann á Bessastöðum kveðst hún stoltust af því að hafa verið sýnileg og virk manneskja sem notaði rödd sína.

„Ég segi þetta í samhengi við það að ég er innflytjandi á Íslandi og lærði íslensku þegar ég var fullorðin sem þýðir að ég er með hreim og geri margar villur þegar ég tala,“ segir Eliza. 

„Ég vil að fólk viti að það þýðir ekki að málfrelsi mitt takmarkist við málefni innflytjenda eða að ég hafi ekki eitthvað til málanna að leggja.“

Vantar fleiri konur á alþjóðasviðið

Hún segir vanta fleiri konur á alþjóðasviðið og segist stolt af því að vera ekki lengur stressuð yfir að ræða málefni sem hún telur mikilvæg.

„Af því að í byrjun taldi ég mig ekki eiga skilið að nota áhrifin sem ég gat haft [sem forestafrú] vegna þess að ég öðlaðist þau vegna þess að maðurinn minn varð forseti.“

Eliza segist hafa tekið ákvörðun um að nýta þetta einstaka tækifæri sem hún hefur fengið til að ræða mikilvæg málefni. Hún vonar að henni hafi tekist að varpa ljósi á mikilvæga málstaði og vonandi hafi henni tekist að sýna að allir geti haft áhrif á nærumhverfi sitt.

„Á okkur hvílir skylda til þess að reyna að nota röddina okkar og hlutverk okkar til að ýta hlutunum í rétta átt,“ segir Eliza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert