Stóð ekki á sama þegar þau sáu veginn

Stark-fjölskyldan frá Chicago: Tyler, Mia, Lin og Steven.
Stark-fjölskyldan frá Chicago: Tyler, Mia, Lin og Steven. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríska ferðamanninum Steve Stark og fjölskyldu hans stóð ekki á sama er þau keyrðu fram á veg sem lagður hafði verið yfir nýrunnið hraun úr Sundhnúkagígaeldum.

„Þegar við sáum veginn sem var nýbúið að gera yfir hraunið, þar sem reykur stóð upp úr, hugsuðum við með okkur að við værum klárlega ekki að fara að stoppa hér,“ sagði Stark í samtali við blaðamann mbl.is að lokinni heimsókn í Bláa lónið í gær, eftir að lónið hafði þá verið opnað að nýju. 

„En af því að við höfum fengið mikið af upplýsingum, þá finnst okkur við öruggari,“ bætti hann við.

Gestir Bláa lónsins gátu notið þess að baða sig eftir …
Gestir Bláa lónsins gátu notið þess að baða sig eftir að lónið opnaði aftur í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ættum við að hlaupa í bílinn okkar?“

Steve er á ferð um landið með konu sinni Lin og börnum þeirra tveimur, en þau eru búsett í Chicago í Illinois-ríki í Bandaríkjunum.

Þau segja ætlunina alltaf hafa verið að fara í lónið í heimsókn sinni til landsins. Þau hafi þó þurft að endurbóka einu sinni, sem reynst hafi mjög auðvelt. 

Þau segjast meðvituð um eldvirknina á Reykjanesskaganum, en í tölvupósti frá Bláa lóninu voru þau látin vita að yfirstandandi eldgos væri í öruggri fjarlægð frá lóninu. 

Spurð hvort þeim líði eins og þau séu örugg svara þau hlæjandi: 

„Ertu að segja okkur að við ættum ekki að vera það? Ættum við að hlaupa í bílinn okkar?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert