„Þeir einu sem eru ánægðir með súld“

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur. mbl.is/Hákon

Rigningin á suðvesturhorninu í dag gleður kannski ekki marga. Nema að sjálfsögðu slökkviliðsmenn, sem hafa að undanförnu slegist við gróðurelda af völdum eldgossins við Sundhnúkagíga.

En þökk sé úðanum fá slökkviliðsmenn í Grindavík að hvíla sig í dag.

„Mjög svo,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, við mbl.is spurður hvort slökkviliðsmönnunum litist ekki örugglega vel á veðrið. „[Við erum] eiginlega þeir einu sem eru ánægðir með súld.“

Hlaða batteríin

Slökkviliðið í Grindavík, með aðstoð frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, hefur varið miklum krafti í að slökkva gróðurelda við eldgosið í Sundhnúkagíga síðustu daga og loksins rættust óskir Einars um rigningarveður.

Það á að rigna í dag og á morgun, samkvæmt Veðurspá. Síðan þornar sennilega upp um helgina og gera má þá ráð fyrir því að aftur þurfi að ræsa út mannskap í slökkvistörf, að því gefnu að eldgosið haldi áfram.

„Við nýtum bara tímann til að hlaða batteríin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert