„Þetta er fólkið til hægri í stjórnmálunum“

Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna.
Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

„Hugsjónir sumra hér byggjast fyrst og fremst á trúnni á mátt einstaklingsins, hvernig dugnaður hans drífi áfram allar framfarir og að samfélagið sé sífellt að flækjast fyrir og trufla með reglum og skilyrðum. Þetta er fólkið til hægri í stjórnmálunum.“

Þetta sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

„Við sem erum til vinstri, byggjum okkar heimssýn á samtakamætti fjöldans, hugsjóninni um jöfnuð og félagslegt réttlæti,“ sagði hún.

Á síðustu áratugum hafi slaknað á félagslegu tauginni með vaxandi einstaklingshyggju hérlendis og á öðrum Vesturlöndum með vaxandi stéttarmun sagði Steinunn.

Friðarhugsjón eigi undir högg að sækja

„Þessu viljum við Vinstri græn vinna gegn,“ sagði Steinunn og benti á að því hafi verið mikilvægt að kjarasamningarnir voru gerðir með aðkomu ríkisvaldsins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra. Með þeim var samið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir sem ríkið greiðir fyrir.

Steinunn segir friðarhugsjónina eiga undir högg að sækja nú um stundir vegna stríðsæsingsins og áróðursins um að frið megi tryggja með vopnavaldi sem hefur verið í samfélaginu. Vísar hún til innrásar Rússlands í Úkraínu ástandsins í Palestínu sem sé erfitt að kalla annað en þjóðarmorð.

Steinunn sagðist fagna því að sjá fólk og sérstaklega yngra fólk eiga hugsjónaeld og til að mótmæla yfir ástandinu í Palestínu.

Almenningur hafi trú á frið

„Ég deili ekki ótta þeirra valdhafa sem telja friðsama mótmælendur háskalega og kjósa fremur að mæta þeim með valdi en með opnum eyrum,“ sagði Steinunn.

„Stríðið í Palestínu, ef stríð skyldi kalla þegar um svo einhliða hernað er að ræða, og stríðið í Úkraínu eru eins og öll önnur stríð og þau eru alltof mörg í dag. Þau verða aðeins leyst við samningaborðið, með því að menn leggi niður vopn og geri málamiðlanir,“ sagði Steinunn.

Hún segir það uppörvandi að skynja að almenningur hafi trú á lausn friðar þrátt fyrir að pólitískur stuðningur við vígvæðingu og vopnavald hafi kannski aldrei verið meiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert