Vill loka svæðinu: „Þetta getur endað illa“

Ferðamenn lentu margir í vandræðum.
Ferðamenn lentu margir í vandræðum. Samsett mynd

Leiðsögumaður hefur áhyggjur af færð gönguleiða við Dettifoss. Hann segir marga ferðamenn hafa komist í hann krappan í dag þar sem hefðbundnar gönguleiðir hafi verið ófærar. 

„Þarna er allt út í snjó og vatni og gönguleiðir eru ófærar,“ segir leiðsögumaðurinn Maurizio Tani í samtali við mbl.is.

Að hans mati væri best að loka svæðinu sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Svona leit göngustígurinn út.
Svona leit göngustígurinn út. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður

Hætt að lítast á blikuna

Segir Maurizio að honum hafi verið hætt að lítast á blikuna er hann fór með hóp ferðamanna að fossinum. Fólk sé á vappi út um allar trissur enda sé lítið um merkingar eða leiðbeiningar fyrir ferðamenn sem margir hverjir eru óvanir göngumenn, hvað þá þegar göngustígarnir eru snæviþaktir.

„Þetta er ástand. Mér finnst þurfa að gera eitthvað. Loka, merkja betur, vara við betur. Það var ekki neitt af því,“ segir Maurizio.

Hann segir fólk auðveldlega geta leiðst út í ógöngur og einfaldlega dottið í sprungu. Kveðst Maurizio hafa nefnt þetta við starfsfólk þjóðgarðsins, sem hafi verið að moka snjó, en fengið lítil viðbrögð við áhyggjum sínum. Hann hafi því einnig haft samband við lögreglu. 

Maurizio Tanzi leiðsögumaður.
Maurizio Tanzi leiðsögumaður.

Sá fólk detta í polla og holur

Sjálfur hafi hann verið með lítinn hóp og gætt þess að enginn færi neitt einsamall. Aftur á móti hafi verið margar stórar rútur fullar af ferðamönnum af skemmtiferðaskipinu Viking Mars. Hann hafi séð nokkra eldri ferðamenn detta ofan í polla og holur, suma jafnvel alveg upp að mitti.

„Þegar þú ert með 60 manna hóp þá getur þú sem leiðsögumaður ekki gert mikið. Fólk getur lent í veseni. Þetta getur endað illa,“ segir Maurizio.

„Ég myndi bara segja að vegurinn sé ófær nema að þú sért sérstaklega reyndur göngumaður. Sem veit hvernig svona aðstæður haga sér. En fyrir þjóðgarð þá finnst mér bara að það eigi að loka.“

Svæðið er þakið snjó.
Svæðið er þakið snjó. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður

Vara við krefjandi aðstæðum

Á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs er varað við krefjandi aðstæðum á stígum við Dettifoss. 

Eru gestir beðnir um að halda sig innan merktra gönguleiða.

„Víða geta leynst holrými undir snjónum og mikið vatn þar á ferðinni. Aðstæður breytast hratt og því meta landverðir stöðuna dag frá degi og loka/opna stíga í takt við þær.

Þau sem kjósa að leggja leið sína að Dettifossi og/eða Selfossi skulu búast við að verða blaut í fæturna og á köflum jafnvel að vaða vatn og krap upp að hnjám. Aðeins þau sem eru vel skóuð og eiga auðvelt með gang ættu að fara að fossunum,“ segir í færslu á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ferðamaður aðstoðaður.
Ferðamaður aðstoðaður. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert