Willum eini gesturinn á fundinum

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir fleiri fundi vera …
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir fleiri fundi vera á döfinni vegna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var eini gestur fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Fundurinn var haldinn í tilefni af frumkvæðisathugun nefndarinnar á netsölu áfengis.

Að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns nefndarinnar, var heilbrigðisráðherra boðaður á fundinn vegna bréfs sem hann ritaði á dögunum til fjármála- og efnahagsráðherra um afstöðu sína til þessa málefnis. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lýkur varla fyrir sumarhlé

„Við eigum eftir að halda fleiri fundi um þetta mál og fá til okkar fleiri gesti,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.

Þá segir hún að umfjöllun nefndarinnar um málið verði líklegast ekki lokið fyrir lok þingstarfa, sem áætluð eru á föstudag. 

„Ég hef ekki ráðgert fleiri fundi í bili, en ég þarf að íhuga það með tilliti til starfstíma þingsins. Það er alveg inni í myndinni að taka þráðinn upp aftur eftir sumarhlé og halda þá áfram."

Samfélagsleg umræða tilefni athugunarinnar

Mikið hefur verið rætt um netsölu áfengis á undanförnum þingfundum, en í gær sendi fjármála- og efnahagsráðherra erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tilefni af bréfi heilbrigðisráðherra sem honum barst 5.júní. 

Þórunn segir tilefni athugunarinnar þó ekki hafa verið bréf heilbrigðisráðherra, heldur almenn umræða í samfélaginu og þrýstingur frá fulltrúum forvarnarsamtaka. 

„Auðvitað reynum við að klára þessa umfjöllun sem fyrst, þótt við vitum ekki alveg hvenær það verður,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert