Bendir til þess að gostímabilinu sé að ljúka

Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga.
Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklega horfum við nú upp á lokametrana í eldsumbrotum við Sundhnúkagíga ef satt reynist að kvikan úr yfirstandandi gosi sé eldri en fyrirrennarar sínir.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í gær að fyrstu mælingar bentu til þess að kvika úr nýja gosinu við Sundhnúkagíga sé af sama stofni og kvikan úr Geld­inga­da­lagos­inu á fyrstu dög­um þess í mars 2021. Því telst hraunið afar frábrugðið fyrirrennurum sínum.

Þetta þýðir að kvikan úr yfirstandandi gosi gæti verið mun eldri en kvikan úr hinum eldgosunum, að mati Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings.

Hraun rennur í gegn um poll sunnan við Sýlingarfell.
Hraun rennur í gegn um poll sunnan við Sýlingarfell. Kort/mbl.is

Líklega að horfa á lokasprettinn

„Ef þetta er gömul kvika sem er búin að sitja þarna frá síðasta eldgosatímabili, og hún er að koma upp núna, þá þýðir það að einhverra hluta vegna er búið að á klippa þessa aukakviku sem kom þessum atburðum [á Sundhnúkareininni] af stað og hefur verið að koma að megni til upp í þessum gosum,“ segir Þorvaldur.

En af hverju væri þessi „aukakvika“ hætt að spúast upp á yfirborð?

Þorvaldur segir að hún gæti einfaldlega hafa klárast. Eða kannski hefur aðgengi hennar að gosrásinni lokast. 

„Ef það er raunin finnst mér líklegt að við séum að horfa á lokasprettinn í þessu öllu saman á Sundhnúkareininni.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Gamla kvikan kom fyrst... og líka síðust?

Þorvaldur færir enn frekari rök fyrir ályktun sinni og segir að fyrir árið 2020 hafi kvika flætt inn í dýpri geymsluna við Sundhnúkagíga. Dýpri geymslan sé sennilega gömul og hafi líklega einnig verið virk á síðasta gostímabili fyrir um 800 árum.

„Þá hafa verið einhverjar leifar af bráð inni í þessu geymsluhólfi og þegar nýferska kvikan kemur inn í það þá ýtir hún gömlu kvikunni á undan sér og þess vegna kemur hún upp í byrjun á Geldingadalagosinu 2021,“ útskýrir hann.

En þegar gamla kvikan er aftur farin að sjást á yfirborðinu þýðir það að minna sé af nýju kvikunni í grynnra geymsluhólfinu.

Við gætum þannig fengið hlé á eldsumbrotum í einhver ár, jafnvel áratugi, að sögn Þorvaldar. En eins er líklegt að hléið yrði ekki nema nokkrir mánuðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert