Fundur um milljarða framkvæmdir í Straumsvík

Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjörður standa fyrir kynningarfundi um hafnarframkvæmdirnar í Straumsvík.
Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjörður standa fyrir kynningarfundi um hafnarframkvæmdirnar í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn halda kynningarfund 20. júní vegna umhverfismats á stækkun hafnar í Straumsvík og skipulagsbreytinga vegna framkvæmdanna.

Í fyrsta áfanga á að leggja varnargarð, gera landfyllingu fyrir lóð Carbfix, byggja viðlegubakka fyrir gasskip tengd starfsemi Carbfix, leggja aðkomuveg að hafnarsvæðinu og sækja efni úr Rauðamelsnámu í Hafnarfirði, að því er segir í tilkynningu frá Skipulagsstofnun.

Stækkað með landfyllingum

Í áföngum 2 og 3 er fyrirhugað að stækka hafnarsvæðið frekar með landfyllingum, bæta við grjótvörn og byggja tvo viðlegukanta.

Efnisþörf fyrir framkvæmdirnar er allt að 2.060.000 rúmmetrar og mun efnistakan á landi fyrst og fremst eiga sér stað í Rauðamelsnámu og þangað verða sóttir allt að 1.340.000 rúmmetrar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Frestur til 30. júní

Á fundinum verða jafnframt kynntar vinnslutillögur að skipulagsbreytingum fyrir stækkun hafnarinnar og efnistöku í námunni.

Skipulagsstofnun hefur auglýst umhverfismatsskýrslu og allir geta kynnt sér hana og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar. Frestur til þess rennur út 30. júní næstkomandi.

Umhverfisvænni tillaga

„Fólk hefur ýmsar spurningar og það er nauðsynlegt og sjálfsagt að svara öllum þeim spurningum," segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, spurður út í kynningarfundinn. 

Lúðvík Geirsson.
Lúðvík Geirsson. mbl.is/Golli

Að sögn Lúðvíks þá hefur lengi verið tillaga um mjög stórar hafnarframkvæmdir í Straumsvík.

Tillagan sem liggur núna uppi á borði sé mun minni heldur en fyrri tillögur og muni ekki skerða land og náttúru með sama hætti og þær sem eldri eru. Er hún því mun umhverfisvænni.

14 milljarðar í heildarkostnað

Tillagan gerir ráð fyrir að hægt sé að byggja höfnina þannig að þar verði þrír stórir hafnarbakkar.

„Sú tala sem hefur verið sett fram, þessir 14 milljarðar, er í raun og veru heildarkostnaður fyrir fullbúna höfn með þremur hafnarbökkum,” segir Lúðvík.

Hann segir þó að verkefnið sem tengist Carbfix þurfi aðeins einn hafnarbakka og að áætlaður kostnaður á honum sé í kringum átta til níu milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert