Í nótt var suðaustanátt og blés gasmengun af eldgosinu í Sundhnúkagígum til norðvesturs yfir Reykjanesbæ.
Í dag er spáð austlægari áttum og er áætlað að gas berist vestur af Reykjanesi, að því er segir í gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands.
Tekið er fram að talsverð óvissa sé með magn gastegunda frá gosstöðvunum.
Loftgæðamælir Umhverfisstofnunnar við Bláa lónið sýnir rautt á vef stofnunarinnar.
Taka skal fram að mælistöðvar Umhverfisstofnunar mæla ekki allar þá mengun sem um ræðir.