Lagði Skattinn í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur snéri við dómi héraðsdóms og Landsréttar sem höfðu staðfest gjaldþrotaúrskurð fyrirtækisins Houshang ehf.

Er það niðurstaða Hæstaréttar að sýslumaður hafi ekki gert nægjanlegar tilraunir til þess að birta eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins aðfarargerð. Eigandinn, Kamran Keivanlou, var með löglega skráð dulið lögheimili í Þjóðskrá.  

Um sex milljón króna krafa frá Skattinum 

Forsaga málsins er sú að Skatturinn gerði aðfararbeiðni í október árið 2023 og krafðist þess að gert yrði fjárnám vegna kröfu upp á rúmar sex milljónir króna.

Þegar fjárnáms var krafist var Kamran Keivanlou, eigandi félagsins og framkvæmdastjóri, með svokallað dulið lögheimili í Þjóðskrá.

Er það ráðstöfun sem hægt er að skrá hjá Þjóðskrá með löglegum hætti samkvæmt 7. grein laga um lögheimili og aðsetur.

Kom einungis fram að lögheimili hans væri ótilgreint í Vestmannaeyjum.

Mótmælti loks um ári síðar 

Með bréfi þann 1. nóvember árið 2022 var Keivanlou boðaður til gerðarinnar sem átti að fara fram á tilteknum tíma þann 30. nóvember.

Gerðin fór ekki fram fyrr en 17. ágúst 2023 á þá skráðu lögheimili Keivanlou í Grafarholti. Hann var hins vegar ekki á staðnum þegar að var komið.

Í september 2023 krafðist Skatturinn gjaldþrotaskipta á búinu. Var upphæð opinberra gjalda sem Keivanlou skuldaði þá nærri 8 milljónum króna með vöxtum og kostnaði.

Krafan barst héraðsdómi 3. október 2023 og var fyrirkall vegna hennar gefið út 6. nóvember sama ár en birt Kamran Keivanlou 10. nóvember á tilgreindu heimili hans í Vestmannaeyjum. Þegar krafan var tekin fyrir 29. sama mánaðar sótti hann þing og mótmælti henni.

Ekki búið að taka mótmæli fyrir 

Krafðist Keivanlou þess í framhaldinu eða í desember árið 2023 að fjárnámið yrði fellt úr gildi en til vara að lagt yrði fyrir sýslumann að endurupptaka gerðina.

Það hafði hins vegar ekki verið tekið fyrir þegar bú Houshang ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar á þessu ári.

Í niðurstöðu Hæstaréttar er fallist á kröfu Keivanlou um að honum hafi aldrei borist tilkynningu um aðfarargerð í tæka tíð og að enginn hefði verið boðaður í fjárnám.

Þá segir í dómnum að ekki hafi verið gerðar nægar tilraunir til að ná á eiganda fyrirtækisins.

Þó hann hafi verið með skráð dulið lögheimili í Vestmannaeyjum hefði verið hægt að gera tilraun til þess að ná í hann fyrir milligöngu sveitarfélagsins. Var því niðurstaða dómsins að fella gjaldþrotaúrskurð úr gildi. 

Yfirlýsing frá Keivanlou

Í yfirlýsingu sem Keivanlou hefur sent frá sér segir hann dóminn sanna að Sýslumaður hafi farið offari gegn sér.

„Við teljum að sýslumaður hafi skaða ríkisvaldið og almannahagsmuni verulega með svona málsmeðferð og ólöglegum ákvörðunum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Mörg fordæmi eru fyrir því að sýslumaður hafi brotið lög og hafa mál þessi komið í fjölmiðlum. Ríkið þarf svo að greiða skaðabætur ef gagnaðili fer höfðar mál. Í þessu tilviki þarf ríkið að greiða 1,5 milljón í málskostnað auk þess sem við áskiljum okkur rétt til að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess skaða sem ólöglegar aðgerðir sýslumanns hafa valdið okkur. Sex mánuðir eru síðan fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota og starfsemin ekki svipur hjá sjón á meðan. Gjaldþrotið setur blett tíu ára rekstrarsögu fyrirtækisins sem glatar trausti á markaði. Ríkið þarf nú að greiða okkur nokkrar milljónir ef við höfðum skaðabótamál.“

Þá telur hann að nokkrir starfsmanna Sýslumanns og í lögfræðideild skattsins séu ekki starfi sínu vaxnir og skorti reynslu og fagmennsku. Vera þeirra í starfi skaði orðspor stofnananna.

Dæmin sanni í öðrum málum að stofnanirnar gangi í takt í aðför sinni gegn fyrirtækjum. Í þessu máli hafi stofnanirnar gengið fram með ólöglegum hætti og það hafi verið gert gagnvart íslenskum fyrirtækjum líka. Þá telur hann stofnanirnar ganga jafnvel enn harðar fram gegn fyrirtækjum sem séu í eigu erlendra aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert