Leynd hvílir yfir teikningunum

Leynd hvílir yfir teikningum af Eddu, húsi íslenskra fræða.
Leynd hvílir yfir teikningum af Eddu, húsi íslenskra fræða. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Aðsend

Leynd hvílir yfir teikningum af Eddu, húsi íslenskra fræða. Beinist leyndin að hvelfingu þar sem til stendur að geyma handritin.

Raunar ríkir leynd yfir teikningum fleiri bygginga í eigu ríkisins. Þar á meðal ráðuneyta og fleiri staða þar sem æðstu stjórnendur ríkisins hafast við.

Að sögn Karls Péturs Jónssonar, samskiptastjóra hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, hvílir ákvörðun um leynd ekki á reglum sem séu fastar í sessi þó til standi að formfesta þær.

Ákvörðun um að halda teikningum leyndum liggur hjá ríkislögreglustjóra og hefur það verklag verið til staðar um árabil.

Leynd hvílir yfir ýmsum byggingum ríkisins þar sem ráðamenn hafast …
Leynd hvílir yfir ýmsum byggingum ríkisins þar sem ráðamenn hafast við. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greiningardeild ákveður leyndina 

„Almennt er það þannig varðandi öryggi æðstu stjórnar, og þá málaflokka sem falla þar undir – þá er það verklag að enginn fær afhentar teikningar af húsnæði sem fellur þar undir nema með leyfi greiningardeildar ríkislögreglustjóra,“ segir Karl.

Að sögn hans falla þjóðhagslegir hagsmunir og ómetanleg verðmæti eins og handritin þar undir. Til stendur að geyma handritin í hvelfingu í Eddu en teikningar af henni eru hvergi í opinberum skjölum sem almenningur hefur aðgang að.

„Varðveisla á þeim [handritunum], fyrirkomulag þess og geymsla á að vera trúnaðarmál og því ekki fyrir almenning eða fjölmiðla að fá afhend gögn sem upplýsa um þá hluti.“

Karl Pétur Jónsson
Karl Pétur Jónsson Ljósmynd/Aðsend

Gert að undirrita trúnaðarskjal

Þeir verktakar sem komu að byggingu Eddu þurftu að skrifa undir trúnaðarskjal þar sem tilgreint var að bannað væri að gefa upplýsingar um það hvar handritahvelfingin er staðsett í húsinu.

Auk þess er þeim meinað að gefa upplýsingar um ákveðna verkþætti.

Gerir hryðjuverkamönnum erfiðara um vik

„Þetta er til að gera misindismönnum á borð við hryðjuverkamönnum og ræningjum, sem vilja komast yfir dýrmætustu gersemar þjóðarinnar, erfiðara um vik,“ segir Karl.

„Þegar verið var að byggja Edduna var tekinn fjöldi mynda af byggingunni og þær birtar opinberlega. Við þurftum hins vegar að passa upp á það að að það sæist aldrei í hvelfinguna þar sem handritin eru geymd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert