Mjög stórt skref fyrir bæjarfélagið

Hafnarfjarðarbær boðaði til kynningarfundar í tengslum við nýtt samkomulag sveitarfélagsins …
Hafnarfjarðarbær boðaði til kynningarfundar í tengslum við nýtt samkomulag sveitarfélagsins við HS Orku um rannsóknir og nýtingu auðlindaréttinda í Krýsuvík til vinnslu á heitu vatni, ferskvatni og til raforkuframleiðslu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru gríðarleg tækifæri sem að þarna eru fyrir hendi til framtíðar. Bæði sem hefst þá með þessari mögulegu virkjun og fjármagni sem bæjarfélagið fær út úr því,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, um samkomulag Hafnarfjarðar við HS Orku um nýtingu auðlindaréttinda í Krýsuvík.

Hafnarfjarðarbær boðaði til kynningarfundar í Bæjarbíói í gær í tengslum við nýtt samkomulag sveitarfélagsins við HS Orku um rannsóknir og nýtingu auðlindaréttinda í Krýsuvík til vinnslu á heitu vatni, ferskvatni og til raforkuframleiðslu.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Málið á sér langan aðdraganda

Í samtali við mbl.is segir Rósa um sé að ræða mjög stórt skref fyrir bæjarfélagið. Málið eigi sér langan aðdraganda og að skiptar skoðanir hafi lengi verið á málinu. Mikil samstaða sé þó í bæjarstjórn sveitarfélagsins núna.

„Þetta hefur oft komið upp að fara að skoða möguleikana þarna en það hafa verið það skiptar skoðanir að það hefur verið látið niður falla þannig það er mjög ánægjulegt að það sé verið að taka þetta skref. Eins og kom fram hérna á fundinum þá er mjög mikilvægt að auka möguleika á afhendingu heits vatns á þessu svæði,“ segir Rósa og vísar þar til umræðu á fundinum þar sem undirstrikað var mikilvægi virkjunarinnar vegna hækkandi fólksfjölda.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku flutti erindi …
Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku flutti erindi á fundinum. mbl.is/Arnþór

Mikilvægt að nýta jarðvarma svæðisins

„Okkur fer gríðarlega fjölgandi og við höfum undanfarin ár upplifað það að vera hvött til þess að draga úr heitavatnsnotkun á ákveðnum dögum þegar það hefur verið frostakaflar og mikið álag. Við sjáum fram á það á næstu árum að álagið mun bara aukast þannig það er bara engin spurning að reyna allt sem hægt er til að nýta þarna þennan jarðvarma.“

HS Orka mun á næstu árum fara í rannsóknarvinnu á svæðinu þar sem möguleikar á virkjun verða athugaðir. Mun fyrirtækið þurfa að bora töluvert af holum og greinilegt er að mikil vinna mun hefjast á svæðinu. Á fundinum viðruðu ýmsir bæjarbúar áhyggjur sínar af þeirri vinnu og þeim áhrifum sem hún gæti haft á náttúruna og landslag svæðisins, bæði á meðan rannsókn stendur yfir og, ef vel gengur, þegar framkvæmdir virkjunarinnar hefjast.

Segir Rósa að bæjarstjórninni finnist mikilvægt að verkefnið sé gert með góðum hætti.

„Okkur er mjög umhugað um þetta svæði. Þetta er mjög fallegt náttúru og útivistarsvæði.“

Sjá möguleika á frekari uppbyggingu

Samningurinn sem Hafnarfjarðarbær og HS Orka hafa gert með sér felur í sér að mikið fjármagn fari til sveitarfélagsins. Á und­ir­bún­ings­tíma fram­kvæmda greiðir fyr­ir­tækið Hafn­ar­fjarðarbæ 300 millj­ón­ir króna, auk fast­eigna­gjalda og lóðarleigu.

Segir Rósa að bærinn sjái fyrir sér að fjármagnið fari í frekari uppbyggingu á svæðinu.

„Við sjáum líka möguleika í því að fá tekjur af þessu sem að munu nýtast til þess að byggja þarna upp innviði til þess að hægt sé að nýta svæðið enn betur t.d. til ferðaþjónustu eða aðgengis fólks að náttúrunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert