„Ráðherrann er rangstæður“

Bréfaskrif ráðuneyta sín á milli hafa vakið mikla athygli. Ráðherrar …
Bréfaskrif ráðuneyta sín á milli hafa vakið mikla athygli. Ráðherrar eru ósammála um hversu mikið þeir mega skipta sér af rannsóknum lögreglu. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur undir bréfaskrif dómsmálaráðherra til fjármálaráðuneytisins. Hann telur samt að ráðherrar hafi svigrúm til að vekja athygli lögreglunnar á „einhverjum stöðum“.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, beindi fyrirspurn sinni að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Snerist fyrirspurnin um bréf dómsmálaráðherra til fjármálaráðuneytisins um afskipti hins síðarnefnda að rannsókn lögreglu á netsölu áfengis.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherrar skrifa sín á milli

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sendi lög­regl­unni á höfuðborgarsvæðinu í bréf í vikunni vegna net­sölu áfeng­is til neyt­enda hér á landi í kjöl­far er­ind­is sem ráðuneyt­inu barst frá heil­brigðisráðherra um þróun áfeng­is­sölu.

Guðrún Hafsteinsdóttir dóms­málaráðherra skammaði Sigurð Inga í bréfi sem hún sendi ráðuneytinu. Hún sagði að ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar ættu ekki að hafa af­skipti af því hvernig mál væru tek­in til rann­sókn­ar sem saka­mál.

„Tekur forsætisráðherra ekki örugglega undir með dómsmálaráðherra hvað hennar afstöðu varðar? Búum við nokkuð í landi þar sem ráðherrar telja það beinlínis skyldu sína að senda lögreglunni bréf eins og þessi – með ábendingum um mál til að skoða?“ spurði Þorbjörg.

Bjarni svaraði og sagði að ekkert í bréfi dómsmálaráðherra gæti verið umdeilt. „Það breytir því ekki að það er eitthvert svigrúm fyrir ráðherra, eftir atvikum forstöðumenn stofnana, til að vekja athygli á einhverjum stöðum og það er það sem hæstvirtur fjármálaráðherra taldi sig vera að gera,“ sagði forsætisráðherra enn fremur.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Þorbjargar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Þorbjargar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Rangstæður“

Þorbjörg steig aftur upp í pontu. Kallaði þá stöðu sem upp var komin „kennslubókardæmi um pólitísk afskipti af lögreglu“ sem ekki væri hægt að skilja öðruvísi en að ráðherra þætti tilefni til að lögregla hefji skoðun á ákveðnu máli.

„Ráðherrann er rangstæður,“ segir viðreisnarkonan um Sigurð Inga. „Og ég vona að dómsmálaráðherra sé ekki eini ráðherrann sem stendur vörð um þessar grundvallarreglur.“ 

Hún bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slík mál hafa komið upp. Nefndi hún í því samhengi upplýsingagjöf lögreglu til fjölmiðla í kjölfar frétta um rannsókn lögreglu á ætluðum lögbrotum í Ásmundarsal, þar sem annar Bjarni hafði þá verið viðstaddur.

„Forseti, ríkisstjórnin verður að hætta að hringja í lögregluna eða senda henni bréf. Búum við ekki í réttarríki?“

Athyglisvert að netverslanir séu ódýrari en ÁTVR

Bjarni svarði Þorbjörgu að betra væri að verja tíma í hið lagalega álitaefni áfengissölunnar frekar en „þessi skoðanaskipti“. 

„Reyndar er athyglisverð staðreynd að netverslun virðist geta boðið áfengi á lægra verði en ÁTVR. Það er athyglisverð staðreynd og það hefur myndast ákveðið lagalegt tómarúm vegna þess að gömul lög tók ekki tillit til þess með hvaða hætti netverslun gæti rutt sér til rúms á þessum vettvangi,“ sagði hann enn fremur.

Og nú virðist heilbrigðisráðherra einnig ætla að blanda sér í drykk. Hann sendi í dag fjármálaráðuneytinu bréf þar sem sagði að með net­sölu áfeng­is væri grafið und­an gild­andi sölu­fyr­ir­komu­lagi á áfengi og grund­vall­ar­mark­miðum stefnu stjórn­valda í lýðheilsu­mál­um ógnað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka