Rannsókn lögreglu á lokametrum

Flutningaskipinu Longdawn var beint til hafnar í Vestmannaeyjum eftir slysið.
Flutningaskipinu Longdawn var beint til hafnar í Vestmannaeyjum eftir slysið. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Farbann skipstjóra og stýrimanns flutningaskipsins Longdawn, sem talið er hafa rekist á strandveiðibátinn Höddu, hefur verið framlengt um fjórar vikur.

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, en tvímenningarnir fyrrnefndu fóru fyrir dóm fyrr í dag.

Strandveiðibáturinn Hadda sökk norðvestur af Garðskaga 16. maí og voru mennirnir handteknir vegna gruns um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska. Voru þeir um borð í flutningaskipinu Longdawn þegar slysið átti sér stað en rannsóknir á siglingagögnum þóttu gefa til kynna að skipið hefði rekist á bátinn og hvolft honum.

Farbann á meðan rannsókn stendur enn yfir

Héraðsdómur Reykjaness féllst á kröfu embættis lögreglustjóra á Suðurnesjum að framlengja farbannið til 11. júlí næstkomandi,“ segir Úlfar og bætir við að farbannið hafi verið framlengt vegna yfirstandandi rannsóknar á meintum árekstri.

Úlfar tekur fram að rannsókn lögreglu sé nú á lokametrum og að í kjölfarið verði rannsóknargögn send til héraðssaksóknara til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert