„Þessi ríkisstjórn sérhagsmuna er komin fram yfir síðasta söludag. Sífellt færri styðja flokkana sem að henni standa, og enn færri styðja ríkisstjórnina,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær.
Gísli sagði nýjustu afurð glundroða-bandalags íhaldsflokkana vera að gefa út hvalveiðileyfi í óþökk við meirihluta þjóðarinnar og sömuleiðis að gera Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra.
„Það eru allir komnir með yfir sig nóg á krísu Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG. Um þau þarf ekki að hafa fleiri orð,“ sagði hann.
Í ræðu sinni sagði Gísli þjóðina vera á tímamótum og að breytingar lægju í loftinu. Beindi hann sjónum sínum að framtíðinni.
„Ímyndum okkur aðeins hvernig þessi ræða mín myndi líta út árið 2031 með Pírata í ríkisstjórn sjö ár þar á undan. Ríkisstjórn þar sem enginn stjórnarflokkur tekur að sér að lúffa ítrekað fyrir Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórnarsamstarf flokka sem sameinast um uppbyggingu raunverulegan efnahagslegan stöðugleika og jöfnuð,“ sagði Gísli.
Nefndi hann í ræðunni að væru Píratar við stjórnvölin árið 2031 væri búið að lækka kosningaaldur í 16 ár, kjörsókn haldist há frá kosningum 2024 og að þjóðfundir og þjóðaratkvæðagreiðslur væru regla en ekki undantekning.
„Búið er að banna hvalveiðar enda ómannúðlegar, óarðbærar og óverjandi. Á Íslandi er sjálfbær ferðamannaiðnaður með áherslu á að vernda náttúru landsins. Ferðamannaiðnaður í sátt og tillitssemi við íbúa landsins. Atvinnugrein sem stuðlar að efnahagslegri velferð næstu kynslóða með lágmörkun umhverfisáhrifa,” sagði Gísli.
Píratar eru ekki í stjórnmálum til að breyta smáatriðum að sögn Gísla heldur til að gera kerfislægar breytingar. Ekki bara plástra og bútasaum.
„Píratar ætla í ríkisstjórn til að tryggja breytingar sem efla atvinnulíf og umhverfis- og loftslagsvernd. Réttindi launafólks eru ofar á forgangslista Pírata en arðgreiðslur hinna auðugu. Við ætlum að einfalda regluverk atvinnulífsins en tryggja á sama tíma öflugt eftirlit og virka neytendavernd,“ sagði Gísli að lokum.
„Kæru áheyrendur, við viljum öll gott líf, í góðu og grænu landi. Það er vel hægt því það er Píratabyltingin.“