Valdbeiting það eina í stöðunni að sögn lögreglu

Mótmælendur fyrir utan Alþingishúsið í gærkvöldi.
Mótmælendur fyrir utan Alþingishúsið í gærkvöldi. mbl.is/Arnþór

Lögregla segir að valdbeiting hafi verið það eina í stöðunni á mótmælunum við Austurvöll í gærkvöldi. Piparúða var aftur beitt gegn mótmælendum og í þetta skipti rataði úðinn í augu þingmanna.

Á meðan eldhúsdagsumræður stóðu yfir á Alþingi í gær stóðu á þriðja hundrað manns við mótmæli fyrir utan þinghúsið. Ein mótmælin tengdust nýútgefnu hvalveiðileyfi en stærstu mótmælin tengdust stríðsrekstri Ísraelsmanna á Gasaströndinni.

„Síðan er ákveðinn hópur af mótmælendum sem eru að toga í girðingar, rífa girðingar í sundur, henda blysum og reyksprengju inn á svæðið,“ segir Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„En stór hópur var til fyrirmyndar, aftur á móti,“ bætir lögregluþjónninn við.

Téður piparúði.
Téður piparúði. Ljósmynd/Aðsend

Hafi otað priki að lögregluþjónunum

Þegar þingmenn voru á leið úr bílakjallara Alþingis ákvað lögreglan að ryðja mótmælendum frá innkeyrslunni.

„Það er ákveðinn hópur sem er að takast á við okkur og endar með að lögreglumaður grípur til og notar piparúða knýja fram að fyrirmælum sé fylgt,“ útskýrir Kristján.

Aðeins einn lögregluþjónn beitti piparúða gegn mótmælendum, að því er Kristján best veit.

„Það er hópur sem er að veitast að okkur. Eru með prik að ota í átt að lögreglumönnum, sem síðan beita piparúða til að slá á þessa hegðun,“ segir hann.

Er þetta annað skiptið innan við tvær viku sem lögregla beitir piparúða gegn mótmælendum. Lögreglan úðaði mótmælendur fyrir utan Umbru í Skuggasundi þann 31. maí, á meðan ríkisstjórnarfundur stóð yfir þar inni.

Frá mótmælunum í gærkvöldi.
Frá mótmælunum í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Piparúðuðu Pírata

Úðanum var beint að ákveðnum mótmælanda í hópnum, að sögn lögreglumannsins. En samt rataði piparúði í augu annarra mótmælenda – og jafnvel þingmanna.

Andrés Ingi Jónson, þingmaður Pírata, og varaþingmennirnir Lenya Rún Taha Karim og Indriði Ingi Stefánsson voru á vettvangi og fengu piparúða í augun. Og samkvæmt vitnisburði Lenyu hlýddu flestir mótmælendur fyrirmælum lögreglu.

Þarna fá þingmenn piparúða í augun. Hvernig gerist það?

„Ég bara veit það ekki. Ef þau hafa staðið við hliðina á aðila sem var spreyjaður þá á þetta að geta smitast. En ég veit ekki hvaða þingmenn voru þarna þannig að ég get ekki svarað því,“ svarar Kristján.

Frá mótmælunum við bílastæðakjallarann.
Frá mótmælunum við bílastæðakjallarann. Ljósmynd/Aðsend

„Ekkert friðsamlegt þegar við þurfum að beita piparúða“

Að undanskildum mótmælunum gærkvöldsins og hinn 31. maí hefur piparúða ekki verið beitt gegn mótmælendum síðan sumarið 2019, að því er mbl.is hefur greint frá.

„Það er þó nokkuð síðan sem við höfum beitt piparúða,“ svarar Kristján, spurður hvort einhver aukin harka sé í þessum mótmælum frekar en öðrum.

Hann segir að lögregluþjónar hafi ekki átt nokkurra kosta völ en að beita piparúða þann 31. maí, og eins með mótmælin í gær.

„Já, þetta er bara ekkert friðsamlegt þegar við þurfum að beita piparúða. Það er alveg á hreinu.“

Hann áætlar að um 200-300 manns hafi verið við mótmælin í gær, en vill ekki gefa upp hversu margir lögregluþjónar voru á vettvangi.

NEL óskar ekki eftir myndefni

Kristjáni segist ekki kunnugt um að nokkur hafi óskað eftir myndefni úr búkmyndavélum.

Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) hefur ekki óskað eftir myndefni af mótmælunum fyrir utan Austurvöll, segir Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Það er samt ekki útilokað að NEL taki það til skoðunar en nefndarmenn hafa ekki tekið atvikið til sérstakrar umræðu.

Skrifstofa Alþingis hyggst ekki tjá sig um atvikið á þessu stigi málsins, segir Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert