Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að með netsölu áfengis sé grafið undan gildandi sölufyrirkomulagi á áfengi og grundvallarmarkmiðum stefnu stjórnvalda í lýðheilsumálum ógnað.
Þetta kemur meðal annars fram i bréfi Willums til Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísar hann meðal annars til markmiðsákvæða áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak sem kveða á um að umgjörð smásölu áfengis skuli byggjast á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir heilbrigðisráðherra tilgang einkasölufyrirkomulags áfengis á smásölustigi byggja á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felist fyrst og fremst í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna þannig gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum þess.
Þá vísar ráðherra í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu sem miði að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma. Stóraukið aðgengi að áfengi með opnun netverslana vinni beinlínis gegn þeirri framtíðarsýn Alþingis.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa verið í skeytasendingum eftir að Sigurður sendi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu erindi vegna netsölu áfengis til neytenda hér á landi. Það kom eftir að fjármálaráðuneytinu barst erindi frá heilbrigðisráðherra um þróun áfengissölu.
Í kjölfarið sendi dómsmálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem kom fram að ráðuneyti Stjórnarráðsins og ráðherrar ríkistjórnarinnar ættu ekki að hafa afskipti af því hvort eða hvernig mál séu tekin til rannsóknar sem sakamál.
Sigurður Ingi sagði í samtali við mbl.is þegar hann var inntur eftirviðbrögðum við tilkynningu dómsmálaráðuneytisins að hann teldi það athafnaleysi af sinni hálfu að aðhafast ekkert í málefnum netverslanna með áfengi og af þeim sökum hafi hann sent bréf til lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu.