Aukinn samdráttur en ekki nóg miðað við markmið

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kynntu uppfærða útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í dag. mbl.is/Eyþór

Reiknað er með að uppfærð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum muni leiða til 35-45% samdráttar í samfélagslosun kolefnis fyrir árið 2030. Um er að ræða samtals 150 aðgerðir og verkefni, en í fyrri áætlun höfðu verið sett á blað tæplega 50 aðgerðir. Þetta mun þó ekki eitt og sér duga til að ná núverandi markmiði Íslands um 55% samdrátt fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.

Aðgerðaáætlunin var kynnt á fundi fjögurra ráðherra í dag, en hún samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum.

Í tilkynningu kemur fram að höfuðáhersla sé lögð á samtal við mismunandi geira atvinnulífsins í nýju aðgerðaáætluninni, en það er gert til að kortlegga betur og skilgreina hvernig hver og ein atvinnugrein getur betur minnkað losun góðurhúsalofttegunda.

Varðandi árangur aðgerðanna þá er metið að þær muni skila 35-45% samdrætti í samfélagslosun fyrir árið 2030, en þá er verið að miða við losun árið 1990. Kemur fram að 45% talan geri ráð fyrir árangursríkri innleiðingu og framkvæmd aðgerða sem ekki var hægt að meta beint.

Veltur á nægu framboði grænnar orku

Í áætluninni er tekið fram að frekari árangur í loftlagsmálum velti á því að hér á landi sé nægt framboð grænnar orku sem komi í stað jarðefnaeldsneytis, eða með svokölluðum orkuskiptum.

Fram kemur að þegar horft sé til innleiðingar og framkvæmda aðgerða sem enn séu í mótun, svo sem hvernig megi hvetja áfram til hreinorkuvæðingar í samgöngum, sé útlit fyrir að því markmiði verði náð. Frekari samdráttar er þó þörf eigi íslensk stjórnvöld að ná sjálfstæðu markmiði sínu um 55% samdrátt árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.

Tekið er fram að árangursríkt samstarf við atvinnulíf og sveitarfélög sé undirstaða þess að slíkur árangur náist og að samfélagið í heild horfi til þess að orkugjafar framtíðar séu sjálfbærir og endurnýjanlegir og að haldið verði áfram á braut grænna orkuskipta.

Í samráðsgátt næstu tvo mánuði

Aðgerðaáætlunin er birt á vefnum www.co2.is  og verður uppfærð eftir því sem aðgerðum vindur fram. Gert er ráð fyrir að aðgerðir verði uppfærðar ársfjórðungslega að undangenginni afgreiðslu verkefnisstjórnar sem skipuð var nú í vor.

Áætlunin er nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda til næstu tveggja mánaða þar sem almenningi, félagasamtökum og hagaðilum gefst kostur á að koma með umsagnir og ábendingar til 14. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka