Dómur styttur fyrir að nauðga þroskahömluðum konum

Maðurinn var dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár.
Maðurinn var dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur stytt dóm yfir karlmanni sem sakfelldur er fyrir að hafa nauðgað tveimur þroskahömluðum konum. Hafði héraðsdómur dæmt manninn í sex ára fangelsi, en Landsréttur taldi fjögurra ára dóm hæfilegan.

Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur þroskahömluðum konum en var sýknaður af öllum ákæruliðum er lutu að einni konunni.

Þá var maðurinn einnig sakfelldur fyrir misneytingu gagnvart annarri konunni en hann hafði fengið hana til að taka reiðufé úr hraðbanka og afhenda honum.

Gagnvart hinni konunni var hann líka sakfelldur fyrir blygðunarsemisbrot en hann beitti konuna blekkingum í gegnum samskiptamiðilinn Messenger til að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana.

Maðurinn var svo sakfelldur fyrir að hafa hótað konunni að dreifa kynferðislegum myndum af henni sem hann hafði fengið hana til að senda sér.

Skildi hana eftir við slysadeildin Fossvogi

Í dómnum er farið yfir brot mannsins gegn konunum en þau áttu sér stað á árunum 2014 til 2018.

Maðurinn kynntist annarri konunni í gegnum fjölskylduna hennar og með samskiptum á Facebook.

Þegar hann misneytti konuna til þess að fara í hraðbanka og gefa sér reiðufé sótti hann hana ásamt vini sínum og konu hans. Þau hafi farið í Kringluna og hún hafi ekki þorað öðru en að taka út reiðufé sem nam 20 þúsund krónum og fékk maðurinn 12 þúsund krónur af þeim.

Maðurinn og konan fóru í Kringluna þar sem hún tók …
Maðurinn og konan fóru í Kringluna þar sem hún tók út reiðufé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynferðisbrotin gegn konunni áttu sér stað í bifreið í Norðlingaholti, á almenningssalerni og á heimili hennar.

Maðurinn sótti konuna 27. nóvember 2013 í Mjóddina og fór með hana í Vínbúð og keyrði svo í Norðlingaholt. Þar þuklaði hann á brjóstum hennar og hún veitti honum munnmök sem leiddi til að maðurinn fékk sáðlát á maga hennar.

Maðurinn keyrði hana svo að slysadeildinni í Fossvogi og skildi hana eftir þar. Hún fékk síðan þáverandi kærastann sinn til að sækja sig þar sem það var mikil hálka og hún ekki treyst sér til að ganga ein heim.

Fékk konuna til að senda sér nektarmyndir

Hinni konunni kynntist maðurinn í gegnum son sinn. Hann sendi konunni vinabeiðni á Facebook árið 2016 undir öðru nafni en sínu eigin og komst þannig í samband við konuna.

Með þessu fékk hann konuna til þess að senda sér nektarmyndir af sér. Sagði hann henni að hann vildi verða kærasti hennar og lofað henni hring ef hún sendi honum nektarmyndir. Hún lét tilleiðast og sendi manninum myndir af kynfærum sínum og brjóstum.

Heimsfaraldurinn og fjöldi matsgerða eru ástæður fyrir því að dráttur …
Heimsfaraldurinn og fjöldi matsgerða eru ástæður fyrir því að dráttur var á meðferð málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Tveimur árum síðar hafði hann samband við konuna og sagðist vilja hitta hana. Hann sótti hana í götu nálægt heimili hennar og ók með hana að heimili sínu. Þar lét hann hana afklæðast, sleikti á henni brjóstin og fékk sáðlát á maga hennar.

Nauðgarnirnar voru heimfærðar undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sem er ætlað að vernda meðal annars fólk með andlega fötlun gegn kynferðisbroti. 

Refsing mannsins var milduð í Landsrétti, en verulegur dráttur var á afgreiðslu málsins. Ástæða þess samkvæmt niðurstöðukafla dómsins er fjöldi matsgerða sem var aflað undir rekstri málsins og heimsfaraldurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert