Eigandinn segist ekkert vita um hvað málið snýst

Gríska húsið við Laugaveg 35.
Gríska húsið við Laugaveg 35. mbl.is/Árni Sæberg

Zakaria Handawi, eigandi Gríska hússins á Laugavegi, segist ekki hafa hugmynd um hvað áhlaup lögreglu á staðinn í gær hafi snúist um.

Hann segir sömu þrjá starfsmennina hafa starfað hjá honum í þrjú ár og að enginn hafi dvalið í húsnæðinu að þeim undanskildum á afgreiðslutíma.

Handawi er staddur á Grikklandi og kemur til Íslands í næstu viku. Hann segist hafa reynt að setja sig í samband við lögreglu til að fá upplýsingar um hvað málið snýst.

Hann hefur hins vegar ekki fengið að vita neitt og segir að lögregla hafi tilkynnt honum að hann muni fá upplýsingar um það síðar.

Aðgerðir lögreglu eru sagðar snúast um meint mansal. 

Tveir handteknir en þeim sleppt í gærkvöldi 

Handawi segir lögreglu ekki hafa óskað eftir samtali við hann þegar hann kemur heim.

Hann segir tvo starfsmenn hafa verið handtekna en þeim hafi verið sleppt um klukkan 23 um kvöldið.

„Þeir fundu ekki neitt því allt er uppi á borðum og löglegt,“ segir Handawi.

„Ég skil ekki af hverju lögreglan er ekki búinn að hringja í mig. Ég hringdi í gær til að spyrjast fyrir og það eina sem ég fékk að heyra er að þeir myndu láta mig vita um hvað málið snýst síðar,“ segir hann.

Segir engan hafa búið í húsinu 

Hann segist ekki getað ímyndað sér hvað lögreglan eigi að hafa í höndunum og hver réttlætingin sé á áhlaupinu.

Spurður segir hann engan búa í húsinu á Laugavegi 35. 

„Ásakanirnar snúast um mansal skilst mér. Ég er með þrjá starfsmenn og nýjasti starfsmaðurinn hefur verið í vinnu í þrjú ár. Allir eru löglegir. Við erum ekki með fleiri starfsmenn því þetta eru 45 fermetrar og við þurfum ekki fleiri,“ segir Handawi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert